Alzheimersamtökin taka við rekstri Foldabæjar

Vilborg Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna, Berglind Magnúsdóttir skrifstofustjóri, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður samtakanna, Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri og Jórunn Frímannsdóttir, forstöðumaður Droplaugarstaða.

Sérhæfð dagþjálfun fyrir fólk með heilabilun – Fríðuhús – sem Alzheimersamtökin reka mun síðar á árinu flytja í húsnæði Foldabæjar í Grafarvogi. Á sama tíma taka samtökin tímbundið við rekstri Foldabæjar, sem er sambýli fyrir konur með heilabilun. Í dag var skrifað undir samning sem samþykktur var í velferðarráði fyrr í vor.

Logafold 56, þar sem Foldabær er nú til húsa, þykir henta mjög vel fyrir dagþjálfun. Sem stendur eiga sex konur lögheimili þar en þar er pláss fyrir átta konur í sérbýlum. Eftirspurn eftir að búa þar hefur minnkað á undanförnum árum, sem skýrist meðal annars af aukinni þjónustu við fólk í heimahúsum. Forsenda fyrir samningnum var að konurnar sem nú búa í Foldabæ verði þar eins lengi og þær vilja og geta. Foldabær heyrir undir hjúkrunarheimilið Droplaugarstaði.

Dagþjálfun fyrir heilabilaða hefur það markmiði að gera einstaklingum með heilabilun kleift að búa sem lengst heima og viðhalda sjálfstæði eftir föngum. Innan Alzheimersamtakanna er mikil reynsla af því að reka dagdvalir fyrir fólk með heilabilunarsjúkdóma en þegar reka samtökin  þrjár af tíu slíkum dagþjálfunum í Reykjavík. „Með þessum samningi er stigið mikilvægt skref í að kanna möguleika og grundvöll fyrir sveigjanlegri dagdvöl eða sérhæfða dagþjálfun eins og samtökin kjósa að kalla starfsemina. Með samningunum gefst þeim konum sem nú búa í Foldabæ tækifæri til að sækja Fríðuhús á daginn en ekki var möguleiki á slíku áður,“ segir Jórunn Frímannsdóttir, forstöðumaður Droplaugarstaða.