Græn lífsgæðaborg leiðarljós nýrrar borgarhönnunarstefnu

Borgarhönnun

Borgarrými þar sem gamalt mætir nýju.

Leiðarljós nýrrar borgarhönnunarstefnu verður græn lífsgæðaborg í samræmi við aðalskipulag Reykjavíkur. Umhverfis- og skipulagsráðs samþykkti í dag að láta vinna borgarhönnunarstefnu sem fjalli með einföldum og skýrum hætti um gæði borgarrýmis og byggðar. Á meðal þess sem verður tekið á í stefnunni eru birtuskilyrði, gæði dvalarrýma, skuggavarpsgreiningar og gróðurþekja á uppbyggingarsvæðum. Samhliða stefnunni verða unnir formlegir gátlistar fyrir hönnuði og aðra sem koma að mótun borgarrýmis.

Hvað er borgarhönnunarstefna?

  • Skilgreinir gæði og borgarmynd.
  • Tryggir heildstæða mynd borgarlandsins og styrkir karakter borgarlandslagsins. Hvað er Reykjavíkurrými?
  • Stendur vörð um gæði í uppbyggingu og endurnýjun eldri byggðar.
  • Setur kröfur um hlutfall grænna innviða.
  • Skýrir verklagsreglur í hönnun og uppbyggingu.
  • Einfaldar ferla, ef leikreglurnar eru skýrar þá er leikurinn léttari.

Af hverju að gera stefnu?

  • Til að skapa heildstæða borgarmynd með sérkennum Reykjavíkur.
  • Borg sem fólk tengir við og þykir vænt um.
  • Borg sem fólk vill búa í.
  • Borg sem er nútímaleg og er byggð til langs tíma.
  • Borg sem er byggð með tilliti til loftslags og náttúru.
  • Borg sem á sögu og segir sögu.

Litið til nágrannalanda

Starfshópur mun vinna drög að stefnunni í samráði við umhverfis- og skipulagsráð. Litið verður til grænna lífsgæðaáherslna í arkitekta- og borgarhönnunarstefnum í borgum nágrannalandanna og settur fram skýr rammi um hönnun almenningsrýmis í þágu virkra ferðamáta og græns yfirbragðs.

Vinnan verður í takt við fyrirliggjandi stefnur borgarinnar. Unnar verða viðeigandi greiningar og úrbætur á verkferlum eftir þörfum. Áhersla verður lögð á samráð og samtal við hagaðila.

Gæði almannarýmis og byggðar

Í greinargerð með tillögunni er lýst hvernig borgarhönnunarstefnan taki á gæðum bæði almannarýmisins og byggðarinnar. Á meðal þess sem verður tekið tillit til er algild hönnun, lágmarksbreidd gangstétta og hjólastíga,  mismunandi skilgreiningar gatna og jarðvegsþykkt á bílakjöllurum með tilliti til gróðurskilyrða. Einnig verða gerðar kröfur til gæða og fjölbreytni byggðar með áherslu á gæði íbúða hvað varðar birtuskilyrði, skuggavarpsgreiningar, loftgæði, heilnæmt umhverfi og takmörkun á hljóðmengun.

Úrbætur á verkferlum

Tilgangurinn er að bæta og skýra verkferla á bæði skipulags- og framkvæmdastigi. Samhliða stefnunni verða unnir formlegir gátlistar fyrir hönnuði og aðra sem koma að mótun borgarrýmis. Hluti af vinnunni verða frekari úrbætur á verkferlum í þágu gangandi og hjólandi.