Hlutverkaleikur, samfélagsþátttaka og draumalýðræði

Skóli og frístund

""

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur efnir til hvatningarverðlauna fyrir leikskóla-, grunnskóla- og frístundastarf á vegum borgarinnar ár hvert. Verðlaunin voru nú afhent í fjórða sinn á öskudagsráðstefnu grunnskólakennara og –stjórnenda í dag.

Markmið hvatningarverðlaunanna er að vekja athygli á því gróskumikla skóla- og frístundastarfi sem fram fer í grunnskólum borgarinnar. 

Verðlaunin eiga að veita starfsfólki grunnskólanna jákvæða hvatningu, ásamt því að viðhalda og stuðla að nýbreytni- og þróunarstarfi. Verðlaunin eru rós í hnappagat starfsins sem þau hlýtur og viðurkenning fyrir vel unnin verk í þágu barna og staðfesting þess að starfið sé fyrirmynd annarra á því sviði sem um ræðir.

Í dag voru veitt þrenn hvatningarverðlaun til grunnskóla,  viðurkenningar til tveggja verkefna í grunnskólum og til þriggja samstarfsverkefna grunnskóla við leikskóla og/eða frístundastarf.

Að þessu sinni bárust 45 tilnefningar vegna 32 verkefna og hafa aldrei verið jafn margar.  

Verkefni sem hljóta hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs fá verðlaunagrip, útskorinn fugl eftir Ingibjörgu H. Ágústsdóttur listakonu í Stykkishólmi. Önnur fimm verkefni fá viðurkenningarskjal.

Hlutverk á Horney

Árbæjarskóli hlýtur hvatningarverðlaun fyrir verkefnið  Horney, sérfræðingskápan. Sérfræðingskápan er námsaðferð þar sem nemendur fara í hlutverk sérfræðinga og leysa verkefni sem skipulögð eru af kennara út frá námsskrá, í þágu ímyndaðra skjólstæðinga. Kennarar ávarpa nemendur sem sérfræðinga með það fyrir augum að auka ábyrgð þeirra og sjálfstraust í námi. Dæmi um nemendur í 4. bekk sem sköpuðu samfélag á óræðri eyju sem fékk nafnið Horney. Eftir að hafa skapað siði og venjur fólksins sem bjuggu á eynni í gegnum m.a. söguskrif, leikræna tjáningu og táknrænar athafnir, bárust þeim þær fréttir að innan fárra ára myndi hún sökkva í sæ sökum hækkandi yfirborðs sjávar í kjölfar hnattrænnar hlýnunar. Nemendur þurftu þannig að takast á umhverfis- og samfélagsmál og leita leiða til að leysa „raunverulegt“ vandamál.

Dómnefnd sagði verkefnið fara út fyrir kassann í vinnubrögðum. Verkefnið kallaði á mikla samvinnu, innlifun og farin var óhefðbundin leið í námi. Með þessari námsaðferð eru námsgreinar samþættar og skiptir máli að börn setji sig í spor annarra og taki frumkvæði.

Hagaskóli styrkir gott mál

Gott mál í Hagaskóla er frábært verkefni sem unglingarnir sjá um að mestu leyti sjálfir með aðstoð kennara og annars starfsfólks skólans. Börnin velja sér málefni til að styrkja, málefni sem þeim finnst að þurfi aðstoð og að vert sé að hlúa að og vekja athygli á. Með þessu læra þau samhygð og félagslega ábyrgð, hópavinnu og skipulag. Verkefnið ýtir undir samvinnu og samkennd en einnig er frábært að sjá hvernig allir Vesturbæingar, fyrirtæki og íþróttafélög í hverfinu taka þátt og skapa frábæran hverfisblæ.

Gott mál hefur vakið mikla athygli en ekki verið viðurkennt áður. Þá hefur það einnig þau áhrif að skólinn fyllist af aðstandendum barnanna sem koma og styrkja verkefnið.

Draumalýðræði í Hólabrekkuskóla

Skólinn hlýtur verðlaun fyrir verkefnið Draumalýðræði í Minecraft. Markmiðið er þverfaglegt nám í gegnum tölvuleik sem tekur mið af menntastefnu Reykjavíkurborgar Látum draumana rætast, og hæfnisviðmiðum aðalnámskrár í upplýsinga- og tæknimennt, sjónlistum, stærðfræði, ensku, náttúrufræði og samfélagsfræðigreinum. Nemendur byggja saman upp lýðræðislegt samfélag og æfast í samskiptum, samvinnu og forgangsröðun.

Allir í sjötta bekk taka þátt í verkefninu sem ein heild. Hver bekkur byggir upp þorp með eigin stjórnkerfi þar sem nemendur kjósa borgarstjóra, dómara og ýmsa formenn fyrir hlutverk sem eru nauðsynleg fyrir þjóðfélag þeirra t.d. bændur, hermenn og námuverkamenn. Bekkirnir kjósa sameiginlegan forseta yfir landinu sem nær yfir þorp, bæi og borgir þeirra.  Þannig læra nemendur um lýðræði í framkvæmd og um ólík stig stjórnsýslu í hefðbundnum lýðræðiskerfum. Að sögn dómnefndar er hér um mjög áhugavert verkefni að ræða, nýsköpun sem er hvetjandi fyrir nemendur og frumlegt að geta nýtt tækni sem er til staðar til að búa til nýjar leiðir og um leið uppfylla hæfniviðmið aðalnámskrár. Hægt er að heimfæra verkefnið á aðra skóla.

Skólaverkefni sem hlutu viðurkenningu

Hlíðaskóli hlaut viðurkenningu fyrir að vera fyrirmyndarskóli í málefnum hinsegin barna.

Hlíðaskóli hefur lagt áherslu á að skapa umhverfi þar sem öllum börnum óháð kyni, kynvitund, kyngervi eða kynhneigð líður vel. Skólinn hefur staðið fyrir fræðslu fyrir bæði nemendur og kennara og er með sérstakt fagráð á sínum vegum vegna hinsegin mála. Skólinn leggur áherslu á ókynjað námsefni og hefur látið taka í burtu kynjamerkingar af salernum. Efnt hefur verið til samstarfs við frístundaheimili skólans í þessum málum og unnið að aðgerðaráætlun við móttöku transbarna.

Að sögn dómnefndar er hér á ferðinni fordæmisgefandi verkefni sem aðrir geta litið til og nýtt sér. Í tilnefningum er lögð sérstök áhersla á gott samstarf á milli fjölskyldu og skóla.

Kelduskóli hlaut viðurkenningu fyrir verkefnið  „Fimman – kennsluaðferð“

Fimman er viðleitni kennara Kelduskóla til þess að sporna gegn hrakandi lestrarfærni nemenda og um leið árangursrík leið að bættum námsárangri. Aðferðin virkar mjög vel og hefur slegið í gegn hjá kennurum, nemendum og foreldrum. Vinna Kelduskóla að Fimmunni hefur vakið athygli víða. Má þar nefna að læsisráðgjafar Menntamálastofnunar hafa fylgst með framvindu hennar sem og aðrir grunnskólar.

Það er mat dómnefndar að hér sé um að ræða metnaðarfullt verkefni  sem hefur það markmið að bæta námsárangur og líðan nemenda. Verkefnið hefur stuðlað að auknum lestraráhuga nemenda og foreldrar verða áþreifanlega varir við árangur aðferðarinnar.

Viðurkenning fyrir samstarfsverkefni

Breiðholtsskóli, Fellaskóli, Hólabrekkuskóli, Seljaskóli og Ölduselsskóli  og foreldrafélög þessara skóla fá viðurkenningu fyrir verkefnið  Skjátími.is

Foreldrafélögin í Breiðholti og skólastjórnendur grunnskólanna í Breiðholti eiga í góðu samstarfi um börnin og grunnskólana í hverfinu. Umræða skapaðist um aukna notkun skjátækja og erfiðleika barna við að stjórna notkun þessara tækja. Í kjölfarið voru gefin út skjátímaviðmið. Verkefnið sýnir glöggt hversu mikilvægt það er að hafa gott samband og samstarf bæði milli foreldrafélaga og skólastjórnenda innan hvers skóla en einnig hverju hægt er að áorka þegar allt skólasamfélagið innan hverfa ákveður að vinna saman.  Að mati dómnefndar er virðingarvert að foreldrafélög hafi frumkvæði að málum sem snerta allt skólasamfélagið.

Langholtsskóli og leikskólarnir Sunnuás, Vinagarður, Brákarborg og Langholt fá viðurkenningu fyrir verkefnið  Farsæl skil leik- og grunnskóla

Með verkefninu er unnið að því að brúa bilið á milli leik og grunnskóla, hafa skilin mýkri og gefa færi á snemmtækri íhlutun. Starfsmenn skólanna hafa aukið mikið samstarf í kjölfar verkefnisins með ýmsum hætti og í umsögn dómnefndar segar m.a. að lögð sé áhersla á markvisst samstarf skólastiga. Þarfir barnsins eru sett í forgrunn og meiri stuðningur er við foreldra líka.

Dalskóli, Ingunnarskóli, Sæmundarskóli, leikskólarnir Geislabaugur, Maríuborg og Reynisholt, frístundaheimilin Fjósið, Stjörnuland og Úlfabyggð fá viðurkenningu fyrir samstarfsverkefnið  Það er gott að lesa.

Markmiðið með verkefninu er að efla málþroska, læsi og lesskilning hjá börnum í Grafarholti og Úlfarsárdal, efla sameiginlega sýn og faglega þekkingu kennara í leik- og grunnskóla á lestrarfræðum og raunprófuðum aðferðum til að efla málþroska og læsi og nýta þau tækifæri sem gefast í skóla- og frístundastarfi til að efla málþroska og læsi barnanna í hverfinu. Útbúin hefur verið sameiginleg læsisáætlun í hverfinu og efnt til samstarfs um verkefni sem hvetja til lesturs. Að sögn dómnefndar er lestur mikilvægur sem undirstaða frekara náms. Til eftirbreytni er að stofna til samvinnu stofnana í skóla- og frístundastarfi í heilu hverfi um málþroska og læsi. Samstarf á milli skólastiga og ólíkra aðila stuðlar að samræmdum áherslum þar sem allir fara í sömu átt og vinna að sameiginlegum markmiðum.

Dómnefnd er skipuð fulltrúum skóla- og frístundaráðs, fulltrúum foreldra, kennara og starfsmanna á skrifstofu SFS. Fulltrúar skóla- og frístundaráðs, sem eru þau Pawel Bartoszek formaður, Alexandra Briem, Katrín Atladóttir og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir. Auk þess sitja í dómnefnd Sigríður Björk Einarsdóttir (fulltrúi foreldra og framkvæmdastjóri Samfoks), Anna Sveinsdóttir (fulltrúi grunnskólakennara og kennari í Seljaskóla) og Guðrún Edda Bentsdóttir (verkefnastjóri á skrifstofu SFS).