Hugmyndasöfnunin fyrir Hverfið mitt á fleygiferð

Hetjan úr hverfinu
Hverfið mitt - Hetjan úr hverfinu

Borgarbúar virðast einkar áhugasamir um að senda inn fjölbreyttar og skemmtilegar hugmyndir í hugmyndasöfnunina Hverfið mitt. Vel á sjötta hundrað hugmyndir hafa verið sendar inn, sem er um 55% aukning frá sama tíma í síðustu hugmyndasöfnun.

Hugmyndasöfnunin stendur nú yfir í fimm vikur og hægt að senda inn hugmyndir til og með 27. október. Á þeim tíma geta íbúar einnig sett „like“ við hugmyndir sem þau vilja sjá verða að veruleika. Kosið verður um 15 vinsælustu hugmyndirnar af samþykktum hugmyndum auk 10 sem valdar eru af íbúaráði hverfisins.

Það verða því 25 hugmyndir í kosningu í hverju hverfi á næsta ári – en aðeins ein hetja verður útnefnd í hverju hverfi. Sá sem fær flest atkvæði í kosningunni á næsta ári verður útnefnd hetja hverfisins við hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Gæti Hetjan úr Hverfinu nú þegar verið búin að senda inn hugmynd í þínu hverfi?

Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnastjóri, segir ánægjulegt að sjá hversu vel hefur gengið í hugmyndasöfnuninni í ár. „Hverfið mitt hefur öðlast sess í hugum borgarbúa og sífellt fleiri taka þátt í hugmyndasöfnuninni. Við höfum verið að kynna verkefnið í grunnskólum og það er skemmtilegt að sjá hversu áhugasamir nemendur eru fyrir þessu verkefni sem gerir þeim kleyft að hafa áhrif á sitt nærumhverfi. Það verður spennandi að sjá hverjir verða hetjur hverfisins“ segir Eiríkur Búi.

Þetta er í tíunda sinn sem hugmyndasöfnunin fer fram og síðan verkefnið hófst árið 2012 hafa 898 hugmyndir orðið að veruleika. Má þar nefna minigolfvelli, sjósundsaðstaða, útiæfingasvæði, klifursteina, litla almenningsgarða, blóm og gróður, listaverk og leiktæki svo eitthvað sé nefnt.

Borgarbúar eru hvattir til að taka þátt, senda inn hugmyndir á hverfidmitt.is og setja „like“ á sínar uppáhaldshugmyndir. Hver verður Hetjan úr hverfinu?