Listsýningar í Hverafold

Verk eftir Hallstein Sigurðsson.

Við Hverafold 1-3 í Grafarvogi er skemmtilegur þjónustukjarni og þar hefur listafólkið Brynjar Helgason og Edyta Gabryszeaska ásamt hundinum Mána, opnað listgalleríið Pysju.

„Hugmyndin fæddist á Kóvídtímanum. Við fórum á starfsleitar- og hvatningarnámskeið hjá Vinnumálastofnun og ákváðum að láta draum okkar um að opna listgallerí verða að veruleika,“ segir Edyta. Þau byrjuðu að leita að húsnæði miðsvæðis í borginni en húsnæðisauglýsing leiddi þau upp í Hverafold og þau urðu strax yfir sig hrifin af rýminu. „Hér er bjart og hátt til lofts svo ekki sé minnst á útsýnið,“ segir Brynjar.

Brynjar og Edytu langar til þess að Café Pysja verði vinsæll viðkomustaður fyrir Grafarvogsbúa og  íbúa í öðrum hverfum. Þau hafa áður sýnt verk,  Ásmundar Ásmundssonar, Sitian Quan frá Kína og Mateusz Hajman frá Póllandi.

Hallsteinn Sigurðsson myndhöggvari

Café Pysja sýnir núna verk Hallsteins Sigurðssonar myndhöggvara. Þeim fannst fara vel á því að sýna verk listamanns með rætur í hverfinu og þeim datt strax Hallsteinn í hug og verkin hans í  Hallsteinsgarði. Garðurinn er í landi Gufuness á hæð austan við gömlu Áburðarverksmiðjuna. Þar eru sextán höggmyndir úr áli sem Hallsteinn kom þar fyrir á árunum frá 1989 til 2012 og gaf Reykjavíkurborg formlega árið 2013.

Þau settu sig í samband við Hallstein  og úr varð fjórða sýningin þeirra og góð vinátta við Hallstein.  þau fengu styrk úr hverfasjóði til að gefa um leið út blað um verk Hallsteins. Blaðið er hægt að nálgast á sýningunni, sem stendur til 4. desember.

Brynjar og Edyta ætla að hafa 5-6 sýningar á ári auk þess sem þau eru með áform um að halda listsmiðjur fyrir alla aldurshópa. Þau hvetja alla til að koma og kynna sér verk Hallsteins. „Hallsteinn er orðinn roskinn og margir búnir að afskrifa hann en hann er frábær listamaður og mér finnst hann mjög modern og mér finnst hann höfða vel til samtímans,“ segir Brynjar.  Hann bætir því við að til standi að taka verk eftir Hallstein, Traktor,  og gera að stafrænu þrívíddarverki.

Hver eru þau Brynjar og Edyta? 

Brynjar er alin upp í Vogahverfi og hann lauk námi frá Listaháskóla Íslands árið 2013 og hefur síðan fengist við list í ýmsu formi. Hann man fyrst eftir verki eftir Hallstein á grasblettinum við Álfheimaísbúðina. Verkið vakti athygli hans en hann vissi ekki þá að höggmyndin væri Hallsteins.

Edyta kemur frá Katowice í Póllandi. Hún lærði menningarfræði og lagðist að því loknu í ferðalög um heiminn. Hún fór m.a. til Japan, sem heillaði hana mikið sér í lagi  barnsleg krúttmenningin. Eftir nokkuð flakk lá leiðin til Íslands því hana langaði að kynnast lífi eyjaskeggja og hún hafði líka heyrt sögur af náttúrufegurðinni hér.

Leiðir þeirra Brynjars lágu saman í partýi í Vogahverfinu og þau hafa verið par síðan. Edyta hefur búið hér í fimm ár og henni líkar vistin vel. Hún bindur vonir við galleríið. „Mér finnst mjög gaman að elda og baka og við Brynjar höfum sótt um kaffihúsaleyfi. Draumurinn er að geta selt kaffi og með því og kannski líka súpu og brauð. Þess vegna nefndum við staðinn Café Pysja“.

Bæði vilja þau að lokum hvetja öll til að koma og kynna sér listina í Grafarvogi. Café Pysja er opin frá klukkan tvö til sex, fimmtudaga til sunnudaga.

Facebook síða Café Pysju 

Viðtal við Hallstein í Hús&Hillbilly