Losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík 2021  

Loftslagsmál Umhverfi

Fólk hjólar yfir Snorrabraut

„Reykjavíkurborg ætlar sér að verða í fararbroddi í loftslagsmálum og freista þess að flýta og herða á aðgerðum til að ná sem mestum árangri á sem skemmstum tíma,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík 2021 var um 553.000 tonn CO2 ígilda. Reykjavíkurborg hefur sett sér það markmið að vera kolefnishlutlaus árið 2040 og sem millimarkmið í þeirri vegferð að draga úr losun um 300.000 tonn til ársins 2030 þar sem árið 2019 er viðmiðunarár.

Reykjavíkurborg hefur nú hlotið þann heiður að vera valin til þátttöku í Evrópusamstarfi um kolefnishlutlausar og snjallar borgir árið 2030.  

Miðað við viðmiðunarárið 2019 hefur dregið úr losun um 35.000 tonn. Samdrátturinn er að mestu leyti vegna færri ferða bifreiða innan borgarmarkanna og minni úrgangsmagns á árinu 2021 en eins og kunnugt er einkenndist það ár af samkomutakmörkunum vegna COVID-19. Til að markmiðið um kolefnishlutleysi árið 2040 náist þarf losun að halda áfram að dragast saman um 31.000 tonn á ári.   

Mikilvægt að styðja við breyttar ferðavenjur

Losun gróðurhúsalofttegunda innan borgarmarka Reykjavíkur skrifast fyrst og fremst á vegasamgöngur, urðun úrgangs og landnotkun. 

„Loftslagsmál og aðgerðir til að vinna gegn útblæstri er lykilverkefni hjá Reykjavíkurborg og hjá borgum um allan heim. Við sjáum að umferð bíla er stærsti einstaki losunarþátturinn og við höfum verið að vinna markvisst til að styðja við breyttar ferðavenjur og stuðla að orkuskiptum. Með stórfelldri aukningu í hjólreiðum og umtalsverðri fjölgun í strætó. Hinn stóri hlutinn af losuninni má rekja til úrgangs þar sem við höfum tekið góð skref og mikilvæg, nú síðast með að sækja lífrænan úrgang hjá heimilum sem er að verða að veruleika í áföngum. Varðandi þessa jákvæðu þróun sem við sjáum í ársuppgjörinu er ekki ástæða til að fagna of snemma því Covid hefur sitt að segja. Þannig að betur má ef duga skal,“ segir Dagur B. Eggertsson .

Margþættar aðgerðir vegna samgangna 

Losun vegna samgangna er langstærsti hlutinn eða um 380.000 tonn og þar af eru 340.000 tonn vegna vegasamgangna. Losun frá vegasamgöngum má helst rekja til aksturs einka- og flutningsbíla innan borgarmarkanna sem eru knúnir áfram af jarðefnaeldsneyti. Á þeim árum sem COVID hafði áhrif á samgöngur dró úr ferðum innan borgarmarkanna og þar af leiðandi einnig úr losun gróðurhúsalofttegunda.  

Langtímalausnin til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna vegasamgangna felst í margþættum aðgerðum eins og að draga úr ferðaþörf og hvetja til vistvænni ferðamáta. Í aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar er lögð áhersla á:  

  • gönguvæna borg  
  • græna borgarþróun  
  • hjólreiðaáætlun  
  • orkuskipti vegna allra samgöngumáta  
  • Borgarlínu og betri almenningssamgöngur 

Gas- og jarðgerðarstöðin mikilvæg  

Næst stærsti losunarþátturinn er vegna úrgangs sem var um 50.000 tonn CO2 ígilda og stóð í stað á milli áranna 2020 og 2021. Árið 2021 var fyrsta heila árið þar sem GAJA, gas- og jarðgerðarstöð SORPU, framleiddi moltu úr lífrænum úrgangi. Samdráttur í myndun úrgangs og meiri framleiðsla hjá GAJA skilar sér í samdrætti í útblæstri vegna minni myndunar metangas og betri föngunar á metani og nýtingu þess.  

Endurheimt votlendis og skógrækt skiptir máli 

Þriðji stærsti losunarþátturinn árið 2021 innan borgarmarka er vegna landnotkunar eða um 45.000 tonn. Endurheimt votlendis og aukin skógrækt er meðal aðgerða í aðgerðaáætluninni sem mun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og binda kolefni.  

Útreikningur á losun gróðurhúsalofttegunda 

Við útreikning á losun gróðurhúsalofttegunda er stuðst við alþjóðlegar leiðbeiningar frá Greenhouse Gas Protocol sem á við borgarsamfélög. Losunaruppsprettur gróðurhúsalofttegunda er skipt upp í umfang (e. Scope) miðað við uppruna og notkun. Umfang 1 er losun GHL frá uppsprettum innan borgarmarka. Umfang 2 er losun GHL sem verður vegna rafmagns, hita, gufu eða kælingar sem notuð er innan borgarmarka og er dreift með veitu-eða dreifikerfi. Umfang 3 er öll önnur losun GHL utan borgarmarka sem verður vegna starfsemi sem á sér stað innan borgarmarka, það er óbein losun sem verður ofar eða neðar í virðiskeðjunni. Viðmiðunartölur sem notaðar eru við útreikning á kolefnishlutleysi eru í umfangi 1 og 2.