Opnað fyrir umsóknir um matjurtagarða

Umhverfi

""

Opnað verður fyrir umsóknir Reykvíkinga um matjurtagarða í borginni mánudaginn 15. mars. Nýbreytnin í ár felst í því að bæst hafa við ræktunarkassar fyrir íbúa á Kjalarnesi.

Um 600 matjurtagarðar eru leigðir út á vegum borgarinnar, þar af eru 200 í Skammadal. Kjalarnes við Fólkvang bætist í sumar við fyrri staðsetningar í Reykjavík sem eru Vesturbær, Fossvogur, Laugardalur, Árbær og Grafarvogur. Matjurtagarðarnir verða opnaðir 1. maí.

Leigugjöld óbreytt frá fyrra ári

Leigugjöld ársins 2021 eru óbreytt frá fyrra ári.  5.000 kr. fyrir garðland í Skammadal (u.þ.b. 100 fermetrar) og 4.800 kr. fyrir garð (u.þ.b. 20 fermetrar). Kassar í Grafarvogi, Árbæ og Kjalarnesi verða á kr. 3.400 kr. kassinn (8 fermetrar). Úthlutun garða verður afturkölluð hafi greiðsla ekki borist á eindaga.

Garðarnir verða merktir. Vatn er aðgengilegt á öllum svæðum. Garðáhöld, plöntur og útsæði fylgja ekki með görðunum. Fyrir byrjendur má geta þess að algengast er að fólk rækti kartöflur og allskonar kál og rófur. Einnig er gott að hafa í huga að hægt er að nálgast forræktað grænmeti í allflestum gróðrastöðvum.

Umsóknir sendist á netfangið matjurtagardar@reykjavik.is en allar nánari upplýsingar er að finna á upplýsingasíðu matjurtagarða hér.