Sumarsmiðjur kennara 2019

Skóli og frístund

""

Fjölbreytt námskeið eru í boði fyrir grunnskólakennara í sumarsmiðjum sem haldnar verða dagana 12. - 14. ágúst í Hagaskóla. Námskeiðslýsingar má sjá hér að neðan. Athugið að skráningum er lokið í Sumarsmiðjur 2019

1. Kennsla í margbreytilegum bekk

Markhópur: Kennarar á öllum stigum

Á námskeiðinu verður í undirstöður kennslu og kennsluaðferðir í margbreytilegum bekkjum sem stuðla að góðum samskiptum innan bekkja og árangri allra nemenda. Undirliggjandi fræði eru skóli fyrir alla, eða skóli margbreytileikans, og fjölmenningarleg kennsla. Kennsluaðferðir sem verða kynntar nánar eru t.d. vinnupallaaðferð, púslaðferð, sjálfsmyndasögur og tungumálasjálfsmyndir. En fremur verða kynntar fleiri samvinnuaðferðir, t.d. CLIM, CLIL og PALS, literacy engagement framework og krosstynging (e. translanguaging). Auk þess verða kynnt öpp og vefir sem er hægt að nýta í orðaforðakennslu, sem og aðferðir sem stuðla að auknu læsi

Markmiðið er að kennarar kynnist og þjálfist í kennsluaðferðum sem stuðla að íslenskunámi, læsi og samstarfi meðal nemenda, geti mætt fjölbreyttum nemendahópi í kennslu sinni og geti í kennslu sinni byggt á margvíslegum auðlindum nemenda

Kennari: Renata Peskova, ajúnkt og verkefnastjóri á Menntavísindasviði HÍ

Staður og tími: Hagaskóli, mánudaginn 12. ágúst kl. 9.00-12.00

Þátttökugjald kr. 4.000,-

 

2. Talk for writing (Rætt til ritunar). Heilsárs starfsþjálfun.

Markhópur: Starfsþjálfunin er ætluð kennurum sem kenna 4. – 8. bekk. Lágmark tveir kennarar frá sama skóla.

Markmið verkefninsins: Að þátttakendur geti notað  aðferð Pie Corbett´s Talk for writing með nemendum sínum.

Inntak námskeiðsins. Aðferðin sem Pie Corbett hefur þróað í samstarfi við Juliu Strong og  kallast Talk for writing veitir börnum hæfni til að ná betri tökum á töluðu máli og að efla orðaforðann sem þau þarfnast í einstökum námsgreinum, áður en þau fara að lesa og skrifa um efnið. Nánar má lesa um það hér: https://www.talk4writing.co.uk/about/  Aðferðin nýtur geysi mikillar vinsældar meðal kennara og nemenda.

Starfsþjálfunin skiptist í 3 lotur og er hver lota 2 dagar. Fyrsta lota er 13. og 14. ágúst, kennarar eru Pie og Mel Corbett. Önnur lota er 4. – 5. febrúar. Þriðja lota er 12. og 13. maí. Kennari í síðari lotunum er Dean Thompson. Hann er reyndur kennari og samstarfsmaður Pie. Milli lota gefst þátttakendum tækifæri til að nota fjölbreytt námsefni Talk for writing með nemendum sínum. Miðja máls og læsis fylgir efninu eftir og veitir stuðning. Nauðsynlegt er að þátttakendur sækja allar loturnar.

Staður og tími:  Hagaskóli, 13. og 14. ágúst kl. 8.30 – 16.00 báða dagana.

Umsjónarmaður málstofunnar: Pie Corbett

Þátttökugjald: Kr. 15.000,-

 

3.     Virkjum hópinn - Árangursríkar og lýðræðislegar aðferðir sem ýta undir jákvæðan bekkjarbrag

Markhópur: Allir kennarar

Markmið: Markmið vinnustofunnar er að fara í gegnum lýðræðislegar kennslu- og námsaðferðir sem allar miða að því að byggja upp jákvæðan bekkjarbrag. Aðferðin nýtist í öllum námsgreinum.

Inntak:Í vinnustofunni verður leitast við því að leiða þátttakendur í gegnum aðferðir og tækni sem styðja jákvæða og uppbyggilega bekkjarmenningu. Aðferðirnar sem unnið verður með vinna gegn hinu dæmigerða valdaójafnvægi í nemendahópum. Í því sambandi verður unnið út frá fjórum meginreglum lýðræðislegra kennsluhátta sem hverfast allar um jákvætt sjálfstæði nemenda, einstaklingsábyrgð þeirra, samhliða virkni og jafnt aðgengi og jafna þátttöku nemenda. Aðferðirnar koma til með að nýtast kennurum með beinum hætti í eigin kennslu.

Lengd: 6 stundir.

Staður og tími: Verður haldið síðar í haust og auglýst þá.

Kennari: Guðrún Ragnarsdóttir, verkefnastjóri starfsþróunar og aðjunkt Menntavísindasviði.

Guðrún hefur haldið námskeið um þetta efni fyrir kennara víða um Evrópu.

Þátttökugjald:  kr. 4.000,-

 

4. Google sumarsmiðja

Markhópur: Kennarar og stjórnendur í grunnskólum

Markmið: Markmið sumarsmiðjunnar er að veita innblástur og styrkja stafræna hæfni einstaka kennara og stjórnenda sem stýra og styðja við innleiðingu á kennsluháttum þar sem Google lausnir eru nýttar.

Inntak námskeiðsins: Fyrri dagurinn byrjar á fyrirlestrum um innleiðingu á kennsluháttum þar sem Google lausnir eru í fyrirrúmi. Fyrirlesarar verða m.a. frá Google Education, skólaskrifstofunni í Árósum og innlendum skólum sem eru með spennandi verkefni og nýbreytnistarf í gangi tengt Google lausnum. Í kjölfarið eru vinnustofur um kjarna-forrit í G suite for Education t.d. Google Drive, Google Docs, Google Slides, Google Forms, Google Classroom. Þátttakendur fara á milli og taka þátt á öllum vinnustofum. Kennsluráðgjafar frá WizKids í Englandi og Danmörku sjá um vinnustofur dagsins sem fara fram á ensku.

Seinni dagurinn byrjar á stuttum fyrirlestri sem verður innblástur fyrir vinnustofur dagsins sem  fjalla m.a. um kennslufræði virks nám (e. Active learning),  samþætt-verkefnatengt nám (e. PBL-project based learning) og hlutverk stafrænna kennsluhátta í þessu samhengi.

Hægt er að taka þátt í hluta af sumarsmiðjunum, t.d. sækja fyrirlestra eða vinnustofur.

Samhliða námskeiðinu verður verður boðið upp á í Pub Quiz um Google lausnir o.fl. til að þétta hópinn og mynda tengslanet fyrir frekari samvinnu

Nánari dagskrá verður send út á næstunni.

Lengd: 2x6 klukkustundir

Staður og tími: ATHUGIÐ Google sumarsmiðjurnar verða í Sæmundarskóla , 12. og 13 ágúst kl. 9.00 – 16.00

Umsjónarmenn: Innleiðingarhópur um Google lausnir í skólastarfi

Þátttökugjald:  Kr. 4.000,-

 

5.  Réttindi barna, barnaþing og lýðræði í skólastarfi með tilliti til margbreytileika

Markhópur: Kennarar í grunnskólum Reykjavíkurborgar.

Markmið: Að kennarar öðlist færni í að ástunda lýðræði í margbreytilegu skólastarfi.

Inntak: Námskeiðinu er ætlað að efla þekkingu kennara á barnaréttindum og lýðræði í skólastarfi þar sem sérstök áhersla er lögð á margbreytileikann í samfélaginu. Þekking og virðing fyrir margbreytileikanum er nauðsynlegur grunnur ef efla á lýðræðisleg vinnubrögð og lýðræðislegt skólasamfélag. Þá verður farið yfir helstu atriði er varða réttindi barna og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Kynntar verða leiðir til að halda barnaþing og þannig hvernig má ástunda lýðræði í marbreytilegu skólastarfi.

Kennari: Sérfræðingur á þessu sviði.

Staður og tími: Hagaskóli, mánudag 12. ágúst kl. 13.00 – 16.00

Þátttökugjald: kr. 2.000,-

 

6. Vellíðan og heilsa

Markhópur: Námskeið fyrir starfsfólk í grunnskólum í tengslum við nýja Menntastefnu borgarinnar.

Markmið og inntak: Heilbrigði er ein af megináherslum nýrrar Menntastefnu. Þættir sem snúa að vellíðan, heilsueflingu og heilbrigði í víðum skilningi heyra þar undir en stefið rímar einnig vel við aðalnámskrá og heilsueflandi samfélög. Með vellíðan í öllu skóla- og frístundastarfi í forgrunni gefst einstakt tækifæri til að styðja andlega, líkamlega og félagslega þætti heilsu. Í námskeiðinu verður skoðað hvaða leiðir virka, hvernig má vinna með viðfangsefnið á hagnýtan hátt og jafnframt nýta sér sjálfum til góðs.

Kennari:  Unnur Björk Arnfjörð, lýðheilsufræðingur og doktorsnemi og Svandís Sturludóttir, námsráðgjafi í Ingunnarskóla

Staður og tími: Hagaskóli, mánudagur 12. ágúst kl. 9.00 – 12.00

Þátttökugjald: kr. 2.000,-

 

7. Viðburðastjórnun

Markhópur: Kennarar

Markmið og inntak: Þátttakendur kynnast helstu þáttum viðburðastjórnunar og skipulagningu stærri og minni viðburða.

Staður og tími: Hagaskóli, mánudaginn 12. ágúst kl. 13.00 - 16.00

Umsjón: Grímur Atlason sem hefur annast skipulagningu fjölda viðburða allt frá tónleikum til bæjarstjórnar.

Þátttökugjald: kr. 4.000,-

 

8. Náttúran í nærumhverfinu – Út vil ek

Borgin okkar iðar af lífi, frá ánamöðkum í moldinni til fugla himinsins, lífríkið í borginni er fjölbreyttara en marga grunar. Það þarf heldur ekki að stíga mörg skref út úr skólastofunni til að kynnast fjölbreytileikanum. Alls konar tegundir dýra og plantna leynast í okkar nánasta umhverfi. Það þarf bara að vita hvar á að leita ! Á þessu námskeiði er náttúran í nær-umhverfi skólans til umfjöllunar. Helstu búsvæðin í borgarumhverfinu og algengustu lífverur verða kynnt til sögunnar og bent á sniðugar leiðir til að finna, skoða og fjalla um þessa nágranna okkar. Hentar vel fyrir flest skólastig.

Leiðbeinandi: Snorri Sigurðsson, sérfræðingur á Umhverfissviði Reykjavíkurborgar

Dagsetning: 14. ágúst

Tími: 13.00 – 15.00

Staðsetning: Hlaðan og svæðið í kringum Gufunesbæ

Námskeiðsgjald: kr. 4.500,-

 

9. Samþætting námsgreina - Út vil ek                                                                         

Allt okkar umhverfi býr yfir ákveðnum ævintýraljóma. Hvað leynist í fjörunni, undir steinunum, öll formin, litagleðin og hljóðin í náttúrunni. Á þessu námskeiði verður vakin athygli á því sem gaman er að skoða og læra um í nærumhverfi skólanna og hvernig hægt er að nota upplifunina í samþættingu námsgreina.

Leiðbeinandi: Guðrún María Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Miðstöð útivistar og útináms

Dagsetning: 12. ágúst

Tími: 09.00 – 12.00

Staðsetning: Hlaðan og svæðið í kringum Gufunesbæ

Námskeiðsgjald: kr. 4.500,-

 

10. Hópefli undir berum himni – Út vil ek                                                                     

Hópefli er frábær aðferð til að hrista saman bekkinn í upphafi skólaárs. Að fara út með hópinn í skemmtilega leiki og þrautir er góð leið til að láta krakkana kynnast og finna sameiginleg markmið. Þátttakendur læra hvernig hægt er að virkja hópinn og námskeiðið miðast við að geta framkvæmt hópefli á snjallan og einfaldan hátt.

Leiðbeinandi: Óttarr Hrafnkelsson deildarstjóri í Nauthólsvík og Siglunesi

Dagsetning: 14. ágúst

Tími: 10.00 – 12.00

Staðsetning: Hlaðan og svæðið í kringum Gufunesbæ

Námskeiðsgjald: kr. 4.500,-

 

11. Teymiskennsla: áskoranir og tækifæri

Markhópur: Allir kennarar sem hafa áhuga á teymiskennslu.

Markmið og inntak: Teymiskennsla, þar sem tveir eða fleiri kennarar eru samábyrgir fyrir einum árgangi, aldursblönduðum hópi, námsgrein eða námsgreinum, hefur verið að ryðja sér til rúms hér á landi á undanförnum árum. 

Á þessu námskeiði mun Ingvar Sigurgeirsson, sem hvort tveggja hefur rannsakað teymiskennslu, og verið ráðgefandi um innleiðingu hennar í mörgum grunnskólum hér á landi, ræða kosti þessara starfshátta, sem og áskoranir og tækifæri. Í framhaldi af erindi Ingvars verða umræður. Í þeim taka þátt þau Gunnar Börkur Jónasson, kennari við Háteigsskóla og Vilborg Guðrún Sigurðardóttir kennari í Hagaskóla, en þau hafa bæði mikla reynslu af teymiskennslu.

 Staður og tími: Hagaskóli, mánudaginn 12. ágúst kl. 9.00-12.00

 

12. Félagsfærni og sjálfsefling

Markhópur: Allir kennarar

Markmið og inntak: Fjallað verður um sjálfseflingu út frá áherslum í aðalnámsskrá og nýrri menntastefnu Reykjavíkurborgar. Farið verður yfir ýmsa undirþætti sjálfseflingar, t.d. sjálfstiltrú, sjálfsþekkingu, sjálfsstjórn og ábyrga ákvarðanatöku. Tengt verður við verkefnið UPRIGHT sem miðar á heildstæðan hátt að aukinni vellíðan og seiglu meðal unglinga, fjölskyldna og starfsfólks skóla. Gefin verða dæmi um verkefni sem þátttakendur fá að spreyta sig á.

Einnig verður fjallað um mikilvægi félagsfærni fyrir börn og ungmenni bæði í samtíð og þegar til framtíðar er litið. Hugtakið verður tengt við félagsfærni hugtakið samskiptahæfni og greint frá niðurstöðum rannsókna Sigrúnar Aðalbjarnar á því hvernig samskiptahæfni ungmenna tengist ýmsum öðrum þroskaþáttum þeirra, líðan og hegðun. Fjallað verður um það hvernig hægt er að efla samskiptafærni heima fyrir og í skólastarfi en í því samhengi er lögð sérstök áhersla á þróunarverkefni sem miða að því að skapa lærdómssamfélag. Þar gefst kennurum og skólastjórnendum tækifæri til að í.

Umsjón: Umsjón: Alda Ingibergsdóttir, sálfræðingur og doktorsnemi við MVS (sjálfsefling) og Sigrún Aðalbjarnardóttir prófessor emerita við MVS (félagsfærni)

Reynsla af vettvangi: Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, sálfræðingur þjónustumiðstöð Breiðholts. Skólatengsl: lykill að árangri og vellíðan nemenda. Fríða Bjarney Jónsdóttir, deildarstýra Nýsköpunarmiðju menntamála. Gefðu 10 – aðferð til að efla tengsl, virka þátttöku og samræður í fjöltyngdum barnahópum.

Staður og tími: Hagaskóli, þriðjudaginn 13. ágúst kl. 8.30 – 12.00

 

13. Læsi; Leiðir til að efla lestrarhraða, orðaforða og lesskilning

Markhópur: Námskeiðið er ætlað starfsfólki grunnskóla;  kennurum, sérkennurum, þroskaþjálfum og deildarstjórum.

Markmið og inntak: Á námskeiðinu verður fjallað um tvær gagnreyndar leiðir til að bæta lestrarhraða, efla orðaforða og lesskilning hjá nemendum á grunnskólaaldri. Fjallað verður um helstu einkenni aðferðanna, rannsóknir þeim tengdum og vinnuferlið við kennslu þar sem aðferðirnar eru notaðar. Sýnd verða dæmi um verða dæmi um verkefni og munu þátttakendur fá tækifæri til að æfa sig í að beita aðferðunum. Efni námskeiðsins er kennt með fyrirlestrum og verkefnavinnu.

Umsjón: Guðrún Björg Ragnarsdóttir, doktorsnemi við MVS og kennsluráðgjafi.

Staður og tími: Hagskóli, mánudagur 12. ágúst kl. 9.00 - 12.00

 

14. Sköpun; Skapandi hugsun og sköpun í verki

Markhópur: Kennarar

Markmið og inntak: Fjallað verður um sköpun sem grunnþátt í skólastarfi – sköpun í námskrám 2011 og sköpunarheftið 2012. Skilgreiningar á sköpun kynntar og fjallað um hvernig við getum greint skapandi skólastarf. Sagt frá rannsóknum kennara á eigin starfi sem beina athygli að því hvernig þeir vinna að því að efla sköpun hjá nemendum sínum. Unnið stutt verkefni sem reynir á sköpunarfærni og samvinnu. Kynntar leiðir til að rýna í og meta sköpun í skólastarfi.

Umsjón: Svanborg Rannveig Jónsdóttir, dósent við MVS

Staður og tími: Hagaskóli, þriðjudagur 13. ágúst kl. 9.00-12.00

 

15. Listkennslukennarinn – vinnustofa um listræna nálgun og samtal

Markhópur: Listgreinakennarar á öllum aldursstigum

Markmið vinnustofunnar: Að listgreinakennarar fái tækifæri til að kynnast djarfri hugsun og nálgun á þekkt viðfangsefni lista og listkennslu. Að þeir fái tækifæri til að kynna sig og kynnast öðrum og skapa mögulegan samtals- og samstarfsvettvang milli þátttakenda.

Inntak vinnustofunnar: Boðið verður upp á tvær smiðjur sem báðar byggja á lengri námskeiðum í Opna LHÍ. Listgreinakennarar velja sér smiðju sem tengist þeirra áhugasviði – sjónlistir/sviðslistir – og allir taka að lokum þátt í samtali/hraðstefnumóti þar sem markmiðið er að deila reynslu og tengja saman aðila til mögulegs samstarfs.

Staður og tími:  Húsakynni Listkennsludeildar LHÍ – þriðjudaginn 13.ágúst kl.13.00-16.00

Umsjónarmenn vinnustofunnar: Ingimar Waage fagstjóri sjónlista í listkennsludeild LHÍ og Vigdís Gunnarsdóttir fagstjóri sviðslista í listkennsludeild LHÍ

Þátttökugjald: Kr. 4.000,-

https://www.lhi.is/opni-listahaskolinn 

 

16. Fjölbreytt menning dansheimsins

Markhópur: Kennarar yngri barna og tónlistarkennarar

Markmið vinnustofunnar: Að kennarar kynnist dansinum sem menningarafli og tæki til að kynnast ólíkum menningarheimum gegnum hreyfingu og tónlist.

Inntak vinnustofunnar: Afro og latin dans í hvetjandi umhverfi með kennslu barna í huga. Kennarar læra auðveld spor og fá lagalista til að nota með nemendum sínum.

Staður og tími:  Húsakynni Kramhússins – þriðjudaginn 13.ágúst kl.13.00-15.30.

Hægt að fara í sturtu/gufu eftir námskeið

Umsjónarmenn vinnustofunnar: Fagfólk á vegum Kramhússins

Þátttökugjald: Kr. 4.000,-

https://www.kramhusid.is/

 

17. Áhrif klámáhorfs og klámvæðingar á viðhorf og samskipti í nemendahópum

Markhópur: Kennarar í grunnskólum Reykjavíkurborgar.

Markmið: Að kennarar átti sig á áhrifum klámvæðingar á samskipti ungmenna og öðlist færni í að ræða við nemendur um muninn á kynlífi og klámi og mikilvægi heilbrigðra samskipta.

Inntak: Hér er rætt opinskátt um klámáhorf ungmenna, hvernig samskipti kynjanna og valdaójafnvægi í klámi sýnir skakka mynd af kynlífi og hvaða áhrif það getur haft á ungt fólk. Rætt er um klámvæðinguna og hvernig hún birtist í dægurmenningunni. Skoðuð eru samskipti ungmenna á samfélagsmiðlum og aukningu á kynferðislegri áreitni. Rýnt er í muninn á kynlífi og klámi og ræddar leiðir til að nálgast umræðuefnið í kennslustund.

Nafna kennara: Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra Jafnréttisskóla Reykjavíkur

Lengd námskeiðs: 3 klst

Staður og tími: Í Hagaskóla mánudaginn 12. ágúst kl. 13.00 -16.00

 

18. Menntastefna Reykjavíkur – látum draumana rætast

Markhópur: Allir kennarar

Markmið og inntak: Fjallað verður um menntastefnu Reykjavíkur „Látum draumana rætast“ og sett upp stutt vinnusmiðja um inntak hennar í ljósi hugmynda kennara um menntun til framtíðar.

Staður og tími: Hagaskóli, þriðjudaginn 13. ágúst kl. 13.00 -14.30

Umsjón: Fríða Bjarney Jónsdóttir deildarstýra Nýsköpunarmiðju Menntamála á skóla- og frístundasviði.

 

19. Foreldraviðtöl leidd af nemendum í skólamenningu trausts

Markhópur: Allir kennarar.

Markmið: Að varpa ljósi á fyrirbærið nemendastýrð foreldraviðtöl (student-led conference) og þá þætti skólamenningar sem sýnt sig hafa getað verið farsæll jarðvegur fyrir slík vinnubrögð. Eitt af leiðarstefjum námskeiðs er að leita svara við spurningunni: Hvaða saga er sögð í mínum skóla? 

Inntak:
Foreldraviðtöl leidd af nemendum tíðkast víða um heim og eru útfærð á fjölbreytta vegu. Meginmarkmið þeirra er að valdefla nemendur og gefa þeim færi á að skilgreina eigið nám og vöxt í námi og lýsa fyrir foreldrum sínum með eigin orðum og áherslum. Slík vinnubrögð krefjast skólamenningar sem ber skýr merki áherslu á sjálfstæð vinnubrögð og valdeflingu nemenda, traust og hugsandi menningu(cultures of thinking). Kennari námskeiðs fléttar saman fræðilegum undirstöðum, praktískum verkfærum, eigin reynslu og sinna barna, sem og ígrundun, umræðum og verkefnum tengdum efninu. Kennarar og stjórnendur úr Brekkubæjarskóla miðla reynslu sinni af nemendastýrðum foreldraviðtölum frá nýliðnum vetri og væntingum sínum til næsta vetrar þar sem áætlað er að fela nemendum á mið- og unglingastigi að leiða foreldraviðtöl. 

Lengd námskeiðs:

3 klukkustundir sem skiptast í þrjár lotur þar sem verkefni og ígrundun eru snar þáttur.

Staðsetning og tími:

Hagaskóli - 12. ágúst kl. 13.00-16.00

Umsjón:
Oddný Sturludóttir, aðjunkt á Menntavísindasviði og MA í stjórnun menntastofnana ásamt kennurum og stjórnendum úr Brekkubæjarskóla. 

 

20. Hreint haf – Kynning á nýju námsefni frá Landvernd

Væri hægt að búa á jörðinni án hafsins? Er bara eitt haf á jörðinni? Hvaðan kemur súrefnið sem við öndum að okkur? Hvernig liti jörðin út án vatns? Getur verið að það verði meira af plasti í sjónum en fiskum árið 2050? Hvernig getum við beitt áhrifum okkar og stutt við heilbrigði hafsins?

Hreint haf

er þverfaglegt námsefni um hafið og þær ógnir sem steðja að því. Námsefnið samanstendur af rafbók og verkefnum og er aðgengilegt á landvernd.is/hreinthaf. Námsefnið er ætlað nemendum á aldrinum 10 - 18 ára og tengist vel grunnþáttum menntunar, þá sér í lagi sjálfbærni og lýðræði og mannréttindum, sköpun og heilbrigði og velferð. Að auki styður námsefnið við skuldbindingar Íslands sem varða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, og má þá helst nefna heimsmarkmið 4.7 sem snýr að menntun til sjálfbærni, 13.3 um að auka menntun sem styrkir við aðgerðir í loftslagsmálum og 14.1, 14.2 og 14.3 sem snúa að lífi í vatni. Í kynningunni verður stiklað á stóru um haflæsi og kynntar aðferðir sem henta vel í kennslu á krefjandi viðfangsefnum líkt og leitaraðferð, nemendamiðað nám, umbreytandi nám, þjónustunám. 

Kennari: Margrét Hugadóttir, náttúrufræðikennari hjá Skólum á grænni grein og sérfræðingur Landverndar

Staður og tími: Í Hagaskóla Mánudaginn 12. ágúst, kl. 12-13.

 

21. Atvinnulífið og verkgreinakennarar

Markhópur: Verkgreinakennarar grunnskólanna

Markmið: Að styrkja tengsl verkgreinakennara við náms – og atvinnutækifæri á sviði iðnaðar og ferðaþjónustu og auka þannig möguleika á samstarfsverkefnum milli aðila grunnskólans og atvinnulífsins.

Inntak:Verkgreinakennarar fá kynningu á ýmsum möguleikum á sviði málmiðngreina og bíliðngreina og tækifæri til að prófa einföld viðfangsefni í rýmum fræðsluseturs iðnaðar – og ferðaþjónustu – Iðunnar. Iðan er öflugt fræðslusetur og mikill áhugi þar á samstarfi og kynningum. https://www.idan.is/

Staður og tími:  Húsakynni Iðunnar  - Vatnagarðar 20 104 Reykjavík. 12. ágúst kl.12:30-16:00.

Umsjónarmenn: Fagfólk á vegum Iðunnar

Þátttökugjald: 7500 ,-

 

22. Skapandi verkefnaskil í raungreinanámi

Markhópur:  Raungreinakennarar grunnskólanna

Markmið: Að kynna raungreinakennurum fjölbreytta möguleika sem fólgnir eru í listrænni verkefnavinnu í tengslum við nám í raungreinum og fjölga með því bæði verkfærum kennarans og leiðum nemandans til þess að takast á við nám í raungreinum.

Inntak: Við Myndlistaskólann í Reykjavík er megináherslan lögð á að vinna með þá þætti stærðfræði og eðlisvísinda sem búa yfir fagurfræðilegum eiginleikum, liggja nærri mörkum heimspeki eða fjalla um skynjun mannsins t.d. eðlisfræði ljóss, litar og hljóðs. Kennari við skólann segir frá kennsluaðferðum sínum og leggur lauflétt verkefni fyrir raungreinakennara. https://www.mir.is

Staður og tími:  Myndlistaskólinn í Reykjavík í JL húsinu, 14. ágúst kl. 8:30-12:00.

Umsjónarmenn: Kennarar við Myndlistaskólann í Reykjavík –  Hildigunnur Birgisdóttir myndlistamaður

Þátttökugjald: 8000,-

 

23. Skapandi verkefnaskil í móðurmáls- og tungumálakennslu

Markhópur:  Móðurmáls- og tungumálakennarar grunnskólanna

Markmið: Að kynna móðurmáls- og tungumálakennurum fjölbreytta möguleika sem fólgnir eru í listrænni verkefnavinnu í tengslum við nám í íslensku og öðrum tungumálum og fjölga með því bæði verkfærum kennarans og leiðum nemandans til þess að takast á við móðurmáls- og tungumálanám.

Inntak: Í íslensku- og tungumálanámi við Myndlistaskólann í Reykjavík vinna nemendur jöfnum höndum myndverk og skrifleg verkefni út frá lesnum texta en myndræn verkefnavinna útheimtir ekki síður ígrundaðan lestur og djúpan skilning á viðfangsefninu en skrifleg greinargerð. Kennari við skólann segir frá kennsluaðferðum sínum og leggur lauflétt verkefni fyrir móðurmáls- og tungumálakennara. https://www.mir.is

Staður og tími:  Myndlistaskólinn í Reykjavík JL húsinu, 14. ágúst kl. 8:30-12:00.

Umsjónarmenn kynningarinnar: Kennarar við Myndlistaskólann í Reykjavík: Halla Kjartansdóttir íslenskukennari og Linda Ólafsdóttir myndlistakona

Þátttökugjald: 8000,-

 

24. Upprifjun í skyndihjálp fyrir sundkennara - A
Markhópur:  Sundkennarar.
Markmið:  Að tryggja öryggi nemenda í sundkennslu og uppfylla reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum um endurmenntun og hæfnispróf sundkennara. 
Inntak:  Námskeiðið skiptist í bóklegan hluta og verklegan hluta sem fer fram ofan í lauginni.  Þátttakendur þurfa því að taka með sér sundföt. Á námskeiðinu verður boðið uppá að taka hæfnispróf. 

Í reglugerðinni segir: Sundkennarar sem fengu leyfisbréf fyrir 15. febrúar 2014 geta valið á milli tveggja kosta til að uppfylla reglugerðina: 1. Sækja endurmenntunarnámskeið og standast hæfnispróf á þriggja ára fresti, eða 2. sækja endurmenntunarnámskeið árlega. Sundkennarar sem fengu leyfisbréf eftir 15. febrúar 2014 skulu sækja bóklegt endurmenntunarnámskeið og standast hæfnispróf á þriggja ára fresti. Sjá nánari upplýsingar um hæfnispróf og viðmið á vef Umhverfisstofnunar: http://ust.is/atvinnulif/hollustuhaettir/sundstadir/haefnisprof-starfsmanna/

Staður og tími: Laugardalslaug, fös. 9. ágúst kl. 8:15 – 16 .

Leiðbeinandi: Oddur Eiríksson

Þátttökugjald: Kr. 16.000,- 

 

25. Upprifjun í skyndihjálp fyrir sundkennara - B
Markhópur:  Sundkennarar.
Markmið:  Að tryggja öryggi nemenda í sundkennslu og uppfylla reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum um endurmenntun og hæfnispróf sundkennara. 

Í reglugerðinni segir: Sundkennarar sem fengu leyfisbréf fyrir 15. febrúar 2014 geta valið á milli tveggja kosta til að uppfylla reglugerðina: 1. Sækja endurmenntunarnámskeið og standast hæfnispróf á þriggja ára fresti, eða 2. sækja endurmenntunarnámskeið árlega. Sundkennarar sem fengu leyfisbréf eftir 15. febrúar 2014 skulu sækja bóklegt endurmenntunarnámskeið og standast hæfnispróf á þriggja ára fresti. Sjá nánari upplýsingar um hæfnispróf og viðmið á vef Umhverfisstofnunar: http://ust.is/atvinnulif/hollustuhaettir/sundstadir/haefnisprof-starfsmanna/

Inntak:  Námskeiðið skiptist í bóklegan hluta og verklegan hluta sem fer fram ofan í lauginni.  Þátttakendur þurfa því að taka með sér sundföt. Á námskeiðinu verður boðið uppá að taka hæfnispróf. Á námskeiðinu verður boðið uppá að taka hæfnispróf.

Staður og tími: Laugardalslaug, mán. 12. ágúst kl.  8:15 – 16. 

Leiðbeinandi:  Oddur Eiríksson

Þátttökugjald: kr. 16.000,-

 

26. Listrænt ákall til náttúrunnar (LÁN) – Samtal náttúrufræði og listgreina

Námskeiðið sem er sjálfstætt framhald Biophilu-verkefnisins byggir á  hugmyndafræði um fyrirbærafræðilega nálgun í námi. Unnið verður með samtal milli náttúrufræði og listgreina. Leitað verður leiða til að finna út hvernig hægt er að vinna með málefni loftslagsbreytinga með nemendum í gegnum þverfaglega samvinnu. Það er öllum ljóst að allir þurfa að læra að lifa á sjálfbærari máta þar sem hlúð er að félagslegum, og vistfræðilegum þáttum á friðsælan hátt. Fræðimenn hafa bent á að til að tileinka sér sjálfbæra lifnaðarhætti og gildismat skipta bæði smáar og stórar breytingar máli. Smáu breytingarnar geta haft mikil áhrif á félagslega þætti samfélagsins sérstaklega þegar lögð er áhersla á þverfaglegt samvinnunám.  

Á námskeiðinu verður fjallað um hvernig mannleg hegðum og jarðefnaeldsneytanotkun er að breyta loftslagi okkar hér á jörðinni. Þetta setur vaxandi toll á náttúrukerfin sem viðhalda heilsu okkar, vellíðan og velmegun. Unnið verður listrænt með ýmis málefni sem tengjast loftslagsbreytingum og þau áhrif sem loftslagsbreytingar hafa á vistkerfi.  Fjallað verður möguleika skólastarfs á að skapa aðstæður fyrir nemendur til að brúa bilið milli þekkingar og þeirra gilda sem við viljum lifa eftir með því með skipulagningu listrænna viðburða. Námskeiðið er bæði í formi fræðilegra fyrirlestra og verklegrar nálgunar.

Markmið: Að skapa vettvang fyrir kennara til að  prófa þverfagleg, fyrirbærafræðileg verkefni sem fjalla um málefni náttúrunnar á skapandi hátt með aðferðum list og verkgreina. List- og verkgreinakennarar öðlist nýja sýn inn í málefni náttúrufræði. Náttúrufræðikennarar kynnist vinnuaðferðum lista og hönnunar. Kennarar byggi á fyrri reynslu og leiti leiða til að auka áhuga ungs fólks á náttúrufræðum og málefnum sjálfbærni.

Staður og tími: Hagaskóli, 12. og 13. ágúst, kl. 9-16

Umsjón: Ásthildur Jónsdóttir

Kennsla: Ýmsir hönnuðir, listamenn og fræðimenn

Skólaárið 2019-2020 verður boðið upp á menntabúðir og námskeið sem tengjast stafrænni hæfni, snjalltækjum, snillismiðjum, tæknistuddu námi, námsmati, Google skólalausnum, margvíslegri miðlun og forritun í fjölbreyttu samhengi.

 

Hlustað á raddir nemenda - Ráðstefna um lýðræðislega kennsluhætti

Föstudaginn 16. ágúst kl. 12:30-16:30

Markhópur: Kennarar á öllum skólastigum

Inntak ráðstefnunnar: Ráðstefna á vegum Landakotsskóla, Kvennaskólans í Reykjavík og Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða um kennsluaðferðir sem miða að því að auka virkni og áhrif nemenda á kennsluhætti. Ráðstefnan er lokaliður í tveggja ára Erasmus+ samstarfsverkefni milli Íslands, Danmerkur og Finnlands sem ber yfirskriftina Raddir nemenda (Students Voices).

Sjá nánar um dagskrá ráðstefnunnar og skráning

Skráningum er lokið í Sumarsmiðjur 2019