Þjónustuskálar Austurmiðstöðvar sameinast á einum stað

Þjónusta við börn og fjölskyldur þeirra hefur verið aukin á miðstöðvum borgarinnar.

Frá og með 15. júlí verður einn þjónustuskáli fyrir Austurmiðstöð borgarinnar en þangað geta einstaklingar sótt ýmsa þjónustu og ráðgjöf. Þetta samþykkti velferðarráð á fundi sínum í síðustu viku. Skrifstofur miðstöðvarinnar verða áfram á þremur stöðum. Síðar flytur öll starfsemi Austurmiðstöðvar í nýtt húsnæði að Dvergshöfða 4, sem er í byggingu.

Þann 1. janúar síðastliðinn voru þjónustumiðstöðvar velferðarsviðs í Gylfaflöt og Hraunbæ sameinaðar í eina undir nafninu Austurmiðstöð. Frá sameiningu hafa þjónustuskálar, þangað sem einstaklingar geta sótt þjónustu og ráðgjöf, verið opnir á báðum stöðum. Frá 15. júlí munu hins vegar íbúar allra austurhverfa borgarinnar, Grafarvogs, Árbæjar, Ártúnsholts, Norðlingaholts, Grafarholts, Úlfarsárdals og Kjalarness, sækja þjónustu í Gylfaflöt.

Ekki er búist við að breytingarnar feli í sér rask fyrir notendur þjónustunnar, meðal annars vegna þess að rafræn miðstöð velferðarsviðs hefur tekið við hluta þeirrar þjónustu sem áður var veitt í þjónustuskálum. Nú fer til að mynda 85% af öllum umsóknum um fjárhagsaðstoð í gegnum rafræna miðstöð.

Skrifstofur Austurmiðstöðvar verða út árið 2022 áfram á þremur stöðum; að Gylfaflöt, þar sem deild barna og fjölskyldna er, í Hraunbæ 115, þar sem deildir virkni og ráðgjafar og fatlaðs fólks eru, og Hraunbæ 119, þar sem deild eldra fólks er. Í janúar 2023 mun starfsemin í Hraunbæ 115 alfarið færast í Gylfaflöt, þar sem tekin hefur verið til leigu neðri hæð hússins. Þær ráðstafanir eru til bráðabirgða en framtíðarhúsnæði Austurmiðstöðvar verður í Dvergshöfða 4, sem er í byggingu. Gert er ráð fyrir að það taki 2–3 ár að fullklára það húsnæði og færa alla starfsemi Austurmiðstöðvar þangað.

„Með sameiningu á skrifstofum Austurmiðstöðvar lítum við til þess að geta veitt íbúum hverfanna enn betri samþætta þjónustu. Þangað til við flytjum í Dvergshöfðann tökum við vel á móti okkar gestum í Gylfaflötinni,“ segir Ingibjörg Þ. Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Austurmiðstöðvar.