Viðurkenningin Eldhugar í umhverfismálum 2019

Umhverfi Skóli og frístund

""

Skipuleggjendur loftslagsverkfalla á Íslandi á Austurvelli og skólaverkfalla fyrir komandi kynslóðir í anda Gretu Thunberg hlutu í dag viðurkenninguna Eldhugar í umhverfismálum.

Viðurkenningin Eldhugar í umhverfismálum er á vegum Reykjavíkurborgar og er afhent árlega um mánaðamótin apríl maí þegar vorhreinsun stendur yfir í borginni og  átakið Hreinsum saman.

Viðurkenningin er vitundarvakning í umhverfismálum í víðri merkingu, m.a. loftslagsmálum. Aðilar sem skara framúr og hafa sýnt frumkvæði í umhverfismálum fá gjarnan þessa viðurkenningu. Oft hafa sjálfboðaliðar sem hafa lagt sig fram við fegrun og hreinsun borgarinnar fengið heiðurinn en núna fær annar hópur sem hefur sett svip sinn á borgina á þessu misseri.

Hópurinn hefur staðið fyrir loftslagsverkfallinu á Íslandi fyrir komandi kynslóðir: Landssamtök íslenskra stúdenta, Samband íslenskra framhaldsskólanema, Ungir umhverfissinnar og Stúdentaráð Háskóla Íslands og allir sem taka þátt í þeim eru eldhugar í umhverfismálum. Þau hljóta viðurkenningu fyrir atorku, frumkvæði og vitundarvakningu í umhverfismálum með mótmælunum á Austurvelli alla föstudaga í samstilltum aðgerðum á heimsvísu. Markmið þeirra er að sýna stjórnvöldum að almenningur sé meðvitaður um alvarleika málsins og vilji róttækar aðgerðir.

„Mér er það því mikill heiður á veita ykkur, þessu frábæra hugsjónafólki sem standið hefur saman að Verkföllum fyrir loftslagið, viðurkenningu fyrir ykkar ómetanlega framlag til loftslagsmála og þar með til framtíðar,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem veitti þeim viðurkenninguna. „Þetta er viðurkenning til barnanna sem hafa sent skýr skilaboð til stjórnvalda. Börnin okkar þurfa að þola áhrif loftslagsbreytinga og við þurfum því að bregðast skjótt við," sögðu þau og hrósuðu Reykjavíkurborg fyrir forystu sína í loftslagsmálum á sveitastjórnarstiginu og sögðust hlynnt því að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum eins og gert hefur verið í Bretlandi. 

Loftslagsverkfallið hefur verið haldið tíu sinnum á Íslandi og 36 sinnum á vegum Gretu Thunberg sem er frumkvöðullinn og hefur staðið fyrir verkföllum skólabarna fyrir loftslagið. Áhrifa hennar og eldmóð gætir víða um heim. 11 verkfallið verður á morgun föstudag.

Nemendur sem hafa mætt á Austurvöll eru bæði hugrakkir og sterkir en um leið áhyggjufull gagnvart stjórnvöldum og viðskiptalífinu. Þau hafa hlotið mikinn stuðning, m.a. frá foreldrum sínum sem oft hafa mætt líka á Austurvöll til að veita styrk.

Elsa María Guðlaugs Drífudóttir einn af skipuleggjendum loftslagsverkfallsins hefur sagt af þessu tilefni að að grípa þurfi til róttækra aðgerða, gera þurfi meira og setja aukinn hraða í aðgerðir gegn loftslagsvá. Hún hvetur stjórnvöld til dáða og til þess að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum líkt og aðrar ríkisstjórnir hafa þegar gert. Nefna má að loftslagsverkföllin/ Strike for Climate hafa verið framkvæmd í yfir þúsund borgum. Unga kynslóðin getur ekki beðið lengur eftir þeirri eldri og hefur tekið til sinna ráða.

Tímarnir eru að breytast og valið stendur aðeins um að það gera eitthvað núna strax. Forsvarsfólk loftslagsverkfallanna tók við viðurkenningum úr hendi Dags B. Eggertssonar borgarstjóra en hann hefur sett loftslagsmál, loftgæði og afleiðingar loftslagsbreytinga á dagskrá almannaverndar höfuðborgarsvæðisins. Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur einnig lagt sitt af mörkum til umræðunnar með tveimur fundum á þessu misseri um loftslagsmál undir heitinu Liggur lífið á?

„Í loftslagsmálum er ekkert annað en róttækni í boði – hvernig sem lífsskoðanir ykkar annars liggja, og það vitið þið allra best. Takk fyrir að stíga fram og taka völdin í ykkar hendur með þessum hætti, með framtíð okkar allra að veði – en þó sérstaklega komandi kynslóða!“ sagði borgarstjóri.

Tengill

@loftslagsverkfall

https://reykjavik.is/loftslagsmal

https://www.facebook.com/loftslagsverkfall/

https://www.facebook.com/foreldrarfyrirframtidina/