Inniloft, raki og mygla

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur veitir ráðgjöf varðandi raka og myglu í húsnæði. 

Rakavandamál í húsum

Geta stafað af leka eða röku lofti sem nær að þéttast, t.d. vegna ónægs viðhalds, byggingargalla eða vegna umgengni íbúa. Of mikill raki, á nánast hvaða yfirborði sem er innandyra, getur leitt til örveruvaxtar, s.s. myglu, sveppa- og bakteríuvaxtar. Því er mikilvægt að stýra rakastigi innandyra. Komi upp mygla þarf fyrst og fremst að fjarlægja orsökina, það er að bregðast við rakavandamálinu. Síðan þarf að lagfæra skemmdir og þrífa vel.

Þar sem ekki eru til opinber viðmiðunarmörk telur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur alla jafna ekki þörf á sýnatökum heldur leggur áherslu á þau viðbrögð sem lýst er hér að ofan. 

Hvenær á að leita til heilbrigðiseftirlitsins?

Ef leiguhúsnæði og annað íbúðarhúsnæði er ekki talið fullnægjandi m.t.t. hollustuhátta eða ef húsnæðið er álitið heilsuspillandi skal skoða leiðbeiningar Umhverfisstofnunar um inniloft, raka og myglu í híbýlum. Bent er á að yfirfara gátlista í lok leiðbeininga og getur fólk leitað til heilbrigðiseftirlitsins samkvæmt reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 ef þörf þykir.

Þegar kvörtun berst metur heilbrigðisfulltrúi hvort þörf sé á að skoða viðkomandi húsnæði. Ef þörf er á húsnæðisskoðun er tími ákveðinn fyrirfram og tveir heilbrigðisfulltrúar fara á staðinn. Um er að ræða sjón-, snerti- og lyktarskoðun en Heilbrigðiseftirlitið raskar ekki byggingarefnum eða tekur sýni. Heilbrigðiseftirlitið hefur ekki heimild til að fara inn á einkaheimili fólks án leyfis húsráðanda. Bent er á að tekið er tímagjald vegna húsnæðisskoðana.

Réttindi og skyldur íbúa, húseigenda og leigusala

Í lögum um fjöleignarhús er kveðið á um að eiganda er skylt á sinn kostnað að halda allri sinni séreign vel við. Í húsaleigulögum er tekið fram að leigjenda er skylt að fara vel með hið leigða húsnæði. Einnig kemur fram í hvaða ástandi það á að vera, rétt leigjanda til að segja til um galla og um skyldur leigusala að gera úrbætur. Ekki má leigja út íbúðarhúsnæði eða íbúðarherbergi ef heilsu manna er stefnt í hættu. Einnig er óheimilt að leigja út húsnæði til íbúðar nema húsnæðið hafi hlotið samþykki byggingarnefndar sem slíkt. Heilbrigðiseftirlitið er sá aðili sem sker úr um hvort íbúðarhúsnæði telst hættulegt heilsu og getur bannað notkun þess.

 

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur

  • Borgartún 12, 105 Reykjavík
  • Þjónustuver 411 1111