Umhverfis- og skipulagsráð - Fundur nr. 304

Umhverfis- og skipulagsráð

Ár 2024, miðvikudaginn 10. apríl, kl. 9:07 var haldinn 304. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð, Hofi. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Friðjón R. Friðjónsson, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Kjartan Magnússon, Pawel Bartoszek og áheyrnarfulltrúarnir Halldóra Hafsteinsdóttir og Helga Þórðardóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björn Axelsson, Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, Guðmundur Benedikt Friðriksson, Inga Rún Sigurðardóttir og Sigurjóna Guðnadóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttur Finnsdóttir.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa ungmennaráðs Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, sbr. 1. liður fundargerðar borgarstjórnar og Reykjavíkurráðs ungmenna, dags. 27. febrúar 2024, sem vísað var til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. Tillaga ungmennaráðsins er svo hljóðandi:

    Lagt er til að borgarstjórn samþykki að hækka laun unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur frá og með næsta sumri í samræmi við breytingar á launavísitölu frá því að síðasta launahækkun var gerð.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að laun unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur hækki frá og með næsta sumri í samræmi við breytingar á launavísitölu frá því að síðasta launahækkun tók gildi vorið 2022. Jafnframt er lagt til að umrædd laun séu fest við launaflokk 217 til framtíðar í hlutfalli við áðurnefnda hækkun.

    Breytingartillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar.

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

    Lagt er til að laun nemenda Vinnuskólans séu fest við launaflokk 217 (grunnlaunaflokkur í kjarasamningi Sameykis og Reykjavíkurborgar), dagvinnukaup 2555 kr. á klst. Laun nemenda ár hvert miðist þá við launaflokk 217 1. janúar þess árs. Nemendur í 8. bekk fái greidd 30% af launaflokki 217, nemendur í 9. bekk 40% af launaflokki 217 og nemendur í 10. bekk 50% af launaflokki 217, sbr. framlagt bréf umhverfis- og skipulagssviðs.

    Breytingartillagan er samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Tillagan er samþykkt svo breytt.

    Úlfhildur Elísa Hróbjartsdóttir frá ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða, Hulda Valdís Valdimarsdóttir verkefnastjóri hjá skóla- og frístundasviði, Þorvaldur Guðjónsson skólastjóri Vinnuskólans og Hreinn Ólafsson fjármálastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. MSS24020127

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

    Við þökkum fulltrúum ungmennaráðs þeirra tillögur. Við tökum undir það að mikilvægt sé að skapa meiri fyrirsjáanleika með launakjör í Vinnuskólanum þannig að þau liggi fyrir strax í upphafi árs. Með samþykkt ráðsins nú er verið að tryggja þann fyrirsjáanleika til framtíðar með því að festa laun nemenda vinnuskólans við hlutfall tímakaups í launaflokki 217 í kjarasamningi Sameykis og Reykjavíkurborgar. Vinnuskólinn í Reykjavík er stærsti vinnuveitandi ungs fólk á landinu sem tryggir öllum ungmennum í 8.-10. bekk sem eftir því óska atvinnu og gegnir mikilvægu hlutverki í því að hjálpa þeim að stíga fyrstu sporin á vinnumarkaðnum. Sömuleiðis er tekið vel utan um ungmenni sem þurfa sértæka aðstoð og stuðning.

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Vinnuskólinn gegnir mikilvægu hlutverki á sviði hreinsunar, fegrunar og viðhalds í Reykjavík. Vinnuframlag unglinganna er mikilvægt og vegur þungt í umhirðu borgarinnar. Laun unglinganna hækkuðu síðast sumarið 2022 en voru síðan óbreytt 2023 samkvæmt sérstakri ákvörðun meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar. Umrædd launafrysting var ekki tilkynnt fyrr en eftir að unglingarnir hófu störf um sumarið og fól í sér verulega kjaraskerðingu fyrir þá. Sanngjarnt væri að leiðrétta nú laun unglinganna í samræmi við breytingar á launavísitölu frá síðustu breytingu árið 2022. Reikna má með að launin þyrftu þá að hækka um 14% til að þau héldu verðgildi sínu miðað við 2022. Á þessum fundi samþykkti meirihlutinn hins vegar tillögu um 7,8% hækkun, sem er langt frá því að vinna upp þá kjaraskerðingu er unglingarnir hafa orðið fyrir frá síðustu hækkun. Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að launin hækkuðu í samræmi við launavísitölu frá 2022, eins og ungmennaráð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða fór fram á, var felld með atkvæðum Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands :

    Sósíalistar taka undir tillögu ungmennaráðs um nauðsyn þess að laun unglinga í Vinnuskóla Reykjavíkur verði leiðrétt og gerð sambærileg launum í öðrum sveitarfélögum fyrir sambærileg störf.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar þessa tillögu Ungmennaráðsins um hækkun launa í Vinnuskóla Reykjavíkur. Laun ungmenna sem starfa í Vinnuskóla Reykjavíkur hafa verið langt undir því sem unglingar fá í öðrum sveitarfélögum fyrir sambærileg störf. Kallað er eftir því að unglingum sé ekki mismunað eftir því hvar þeir búa, jafnræði sé tryggt og að laun í Vinnuskólanum fylgi launaþróun í landinu. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að hlúa að vinnuskólanum að öllu leyti. Vinnuskólinn þjónar mikilvægu hlutverki. Meginhlutverk Vinnuskólans er að veita nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla uppbyggileg sumarstörf, fræðslu og tækifæri til að starfa við fjölbreytt verkefni sem flest snúa að garðyrkju og umhirðu í borginni. Laun í Vinnuskólanum þurfa að vera vísitölutengd enda ekki annað sanngjarnt. Þótt verðbólga sé eitthvað að síga niður má ætla að langur tími sé í einhvern viðvarandi stöðugleika í efnahagslífinu. Laun þessa hóps eiga að lúta almennum verð- og kjarabótum eins og laun annarra í samfélaginu. Umhverfis-og skipulagsráð lagði til hækkun launa sem ber að fagna en Flokkur fólksins hefði viljað að sjá breytingar tillögu Sjálfstæðisflokksins samþykkta þar sem laun hefðu hækkað meira þ.e. í samræmi við breytingar á launavísitölu frá því að síðasta launahækkun tók gildi vorið 2022. 
     

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf Fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkur, dags. 30. mars 2024 vegna fjárhagsáætlunar umhverfis- og skipulagssviðs fyrir 2025 - 2029.

    Hreinn Ólafsson fjármálastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24030117

    Fylgigögn

  3. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar skipulagsfulltrúa 4. apríl 2024. USK23010150

    Fylgigögn

  4. Að lokinni grenndarkynningu er lögð fram að nýju umsókn Plúsarkitekta ehf. og Fring ehf., dags. 3. nóvember 2022, um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna lóðarinnar nr. 14 við Lindargötu. Í breytingunni sem lögð er til felst að heimilt verður að hækka húsið um eina hæð, samkvæmt uppdr. Plúsarkitekta dags. 13. febrúar 2023, br. 24. mars 2024. Einnig er lagt fram skuggavarp Plúsarkitekta dags. 13. febrúar 2023. Tillagan var grenndarkynnt frá 17. apríl 2023 til og með 17. maí 2023. Eftirtaldir sendu athugasemdir: Fjórir eigendur og leigjendur að Klapparstíg 14, dags. 14. maí 2023, Guðni Pálsson, dags. 15. maí 2023, Ólafur Th. Ólafsson og Birna Eggertsdóttir, dags. 16. maí 2023, Friðrik Steinn Kristjánsson og Ingibjörg Jónsdóttir f.h. Silfurbergs ehf. og Berg Contemporary ehf. og Kristinn Pálmarsson f.h. K16 ehf., dags. 15. maí 2023 og danska sendiráðið, dags. 15. maí 2023. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 21. mars 2024. Lagt er til að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögninni.
    Samþykkt sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 21. mars 2024.
    Vísað til borgarráðs.
    Leiðrétt bókun er: Samþykkt með þeim breytingum sem koma fram í umsögn skipulagsfulltrúa dags. 21. mars 2024, með vísan til a. liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur umhverfis- og skipulagsráðs án staðfestingar borgarráðs. SN220704

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Þetta hverfi er nú þegar frekar skuggsýnt og jafnvel á köflum drungalegt. Þétting byggðar hefur ekki komið vel út þarna. Þröngt er á milli húsa og þrengsl víða. Bein áhrif breytinga eru á einstaka íbúðir. Athugasemdir eru ekki margar en snúa að áhyggjum af því að birtuskilyrði í íbúðum muni skerðast með tilkomu ofanábyggingar sökum nálægðar hennar. Ennfremur muni útsýni og kvöldsól skerðast. Ofanábyggingin að Lindargötu 14 mun fá mikið útsýni á kostnað þeirra sem eru að missa útsýni sem þeir hafa núna. Einnig mun við ofanábygginguna og væntanlegri tilkomu svala á breyttu húsnæði skapast innsýn inn í núverandi íbúðir sem ekki var til staðar áður eins og segir í athugasemdum. Fulltrúi Flokks fólksins leggur höfuðáherslu á að birta sé ekki skert. Skerðing birtu getur gjörbreytt íbúð sérstaklega smáum búðum. Birta í híbýlum hefur mikil áhrif á andlega líðan fólks.  Í svari við athugasemdum segir að “við þéttingu byggðar má búast við því að útsýni úr einstökum húseignum geti tekið breytingum og að nýbyggingar geti haft í för með sér innsýn inn í íbúðir sem fyrir eru.” Þetta eru engin rök að mati fulltrúa Flokks fólksins. Komin er fram málamiðlunartillaga og vonar Flokkur fólksins að málið fái góðar málalyktir.
     

    Fylgigögn

  5. Fram fer kynning á þremur tillögum sem bárust vegna hugmyndaleitar fyrir Ægisíðu 102.

    -    Kl. 9:57 tekur Ólöf Örvarsdóttir sviðsstjóri sæti á fundinum.
    -     Kl. 10:03 tekur Margrét Lára Baldursdóttir sérfræðingur sæti á fundinum.

    Óðinn Árnason frá Festi, Oddur Víðisson frá DAP arkitektum og Sólveig Sigurðardóttir verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar er færð í trúnaðarbók. USK24040052
     

  6. Lögð fram skipulagslýsing umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. í apríl 2024, vegna nýs deiliskipulags við Malarhöfða í Reykjavík, á landnotkunarsvæði M4 í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040. Með tilkomu framtíðar Borgarlínu og uppbyggingu á Ártúnshöfða við Elliðaárvog býðst einstakt tækifæri til að glæða lífi í gamalt iðnaðarhverfi og umbreyta því í spennandi og vistvænt hverfi. Lagt er til að lýsingin verði kynnt og leitað umsagna þeirra aðila sem taldir eru upp í henni.
    Samþykkt að kynna lýsingu nýs deiliskipulags í samræmi við 1. og 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Leita skal umsagna um lýsinguna hjá Skipulagsstofnun, hagsmunaaðilum innan Reykjavíkurborgar, Strætó bs., Betri samgöngum ohf., Vegagerðinni, Veitum, Minjastofnun, Íbúaráði Grafarvogs, Íbúaráði Árbæjar, Íbúasamtökum Bryggjuhverfis, Knattspyrnufélaginu Þrótti og Glímufélaginu Ármanni og einnig kynna hana fyrir almenningi.

    Valný Aðalsteinsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24040009

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Um er að ræða nýtt deiliskipulag við Malarhöfða í Reykjavík þar sem ekkert deiliskipulag er í gildi á svæðinu. Segir í gögnum að uppbyggingu á Ártúnshöfða við Elliðaárvog býðst einstakt tækifæri til að glæða lífi í gamalt iðnaðarhverfi og umbreyta því í spennandi og vistvænt hverfi. Benda má á í þessu sambandi að einföld leið til að byggja upp skemmtileg hverfi er að sjá til þess að félagsleg blöndun geti átt sér stað. Þetta má gera með því að hafa kvaðir um meðalstærð íbúða. Þannig að ef meðalstærð sé ákvörðuð af skipulagsyfirvöldum að eigi að vera 100 ferm, leiði það til þess að ef byggð er 150 ferm íbúð þurfi einnig a byggja aðra sem er 50 ferm. Fjölbreytni í húsakosti stuðlar að félagslegri blöndun sem skapar skemmtilegt samfélag.
     

    Fylgigögn

  7. Lögð fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa, dags. 4. apríl 2024, að breytingu á skilmálum Bústaðahverfis. Í breytingunni sem lögð er til felst að bætt við texta í skilmálum í kaflanum 5.1.1. er snýr að svölum á rishæð húsanna.
    Samþykkt.

    Valný Aðalsteinsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24040055
     

    Fylgigögn

  8. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa 26. mars 2024. USK22120096

    Fylgigögn

  9. Lögð fram fundargerð afgreiðslufundar samgöngustjóra dags. 4. apríl ásamt fylgigögnum. USK24010019

    Fylgigögn

  10. Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. dags. 5. mars 2024. Einnig er lagður fram ársreikningur Sorpu bs. fyrir árið 2023. USK23010167

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð frá fundi stjórnar Reykjanesfólkvangs, dags. 22. mars 2024. USK24020008

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Í raun liggur engin sérstakur rökstuðningur fyrir því af hverju Reykjavík vill segja sig úr Reykjanesfólkvanginum. Það er svo sem kannski engin ástæða fyrir Reykjavík að taka þátt í þessu samstarfi þar sem fólkvangurinn er fjarri Reykjavík en Reykjanesfólkvangur er á sunnanverðum Reykjanesskaga, milli Vesturháls í vestri og að sýslumörkum Árnessýslu í austri og niður að sjó. Norðan megin liggja mörk hans meðfram Heiðmörk og Bláfjallafólkvangi. Að honum standa 7 sveitarfélög; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík og Reykjanesbær.
     

    Fylgigögn

  12. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Laugarásveg og öryggismál götunnar, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 6. september 2023. Einnig lagt fram svar skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 4. apríl 2024. USK23090041

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Þessi fyrirspurn er eldgömul eða frá því í sept. 2023. Ítrekað hafði Flokkur fólksins bent á að þótt fjölmargar ábendingar hafi borist þá var lengi vel ekki brugðist við til að styrkja öryggi á Laugarásvegi. Fulltrúi Flokks fólksins var farinn að verða uggandi um að slys gæti átt sér stað og hvort ekki ætti að byrgja brunninn áður en barnið fellur í hann. Búið er að mála götuna en það væri mjög fínt að fá skilti sem sýnir 30 km. hraða. Af hverju er ekki hægt að setja skilti. Það er sérkennilegt að segja að skilti séu eingöngu þar sem svæði á ákveðnum hraða byrjar og endar. Nauðsynlegt er að hafa allar þær merkingar sem bjóðast, hraðahindranir og skilti. Meðalhraðinn þarna er vel yfir 30 og mesti hraðinn mjög mikill þannig þetta er greinilega hættuleg gata.
     

    Fylgigögn

  13. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðhorfskönnun Maskínu um göngugötur 2023, sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 13. september 2023. Einnig lagt fram svar skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 2. apríl 2024 USK23090134

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Hér er loks verið að svara fyrirspurn sem lögð var fram í september 2023 eða fyrir 7 mánuðum. Spurt var um kostnað könnunar Maskínu og óskað var eftir upplýsingum aftur í tímann. Í svari kemur fram að heildarupphæð greiddra reikninga vegna kannana um göngugötur frá árinu 2017 er 2.927.419 kr. þar af var kostnaður við gerð könnunar 2023 609.615 kr. Flokkur fólksins áttar sig ekki á þessum sífelldu könnunum sem sýna ár eftir ár að mestu sömu niðurstöður. Um er að ræða umtalsverðar upphæðir sem betur væri notað í annað en að borga fyrir að fá sömu svörin ár eftir ár. Í þessu tilfelli vitum við vel að þeir sem búa fjarri miðbænum og eru eldri eru neikvæðir gagnvart göngugötu og þeir sem búa nær og eru yngri eru jákvæðari gagnvart göngugötum. Hér er ekki um nein geimvísindi að ræða og engan nýjan sannleik heldur. Í raun er hér fátt nýtt undir sólinni. 
     

    Fylgigögn

  14. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 24. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 3. apríl 2024, um Kleppsveg.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK24040025

  15. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 26. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 3. apríl 2024, um Langholtsveg.
    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds. USK24040027

  16. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 3. apríl 2024, um Laugarnesveg.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.
    USK24040026

  17. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sbr. 27. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 3. apríl 2024, um reit M9c í Úlfarsárdal.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa. USK24040028

  18. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 3. apríl 2024, um breytingar á sorpgerði í Bólstaðarhlíð. Greinargerð fylgir fyrirspurn.
    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða. USK24040021

    Fylgigögn

  19. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindarmála dags. 28. febrúar 2024 ásamt kæru nr. 22/2024 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. júlí 2023 um að hafna byggingarleyfisumsókn USK23050220 frá 17. maí 2023 sem varðar klæðningu á suðurhlið hússins Rofabæ 43-47. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 26. mars 2024 USK24020283

    Fylgigögn

  20. Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. febrúar 2024 ásamt kæru nr. 23/2024, dags. 26. febrúar 2025, þar sem kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar að hafna beiðni kæranda að taka upp ákvörðun um veitingu byggingarleyfis sem veitt var Apartments og rooms ehf. 30. ágúst 2022 og varðar Hraunberg 4. Einnig er lögð fram greinargerð Reykjavíkurborgar, dags. 26. mars 2024. USK24020285

    Fylgigögn

  21. Lagt fram afgreiðslubréf, dags. 14. mars 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingum á þéttbýlisuppdráttum Aðalskipulags Reykjavíkur 2040. USK24020305

    Fylgigögn

  22. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 21. mars 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Slippa- og Ellingsensreits og Vesturbugtar vegna reita 03 og 04. USK23100159

    Fylgigögn

  23. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 21. mars 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á skilmálum deiliskipulags Vogabyggðar 3. USK24030035

    Fylgigögn

  24. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 21. mars 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir Elliðaárvog/Ártúnshöfða, svæði 2A. USK23010195

    Fylgigögn

  25. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 21. mars 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 vegna lóðarinnar að Einarsnesi 36. USK24020304

    Fylgigögn

  26. Lagt fram afgreiðslubréf borgarráðs, dags. 21. mars 2024, vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á hverfisskipulagi Árbæjar, hverfi 7.3. Selás, vegna lóðarinnar nr. 98 við Selásbraut. USK23020273

    Fylgigögn

  27. Lagt er fram minnisblað Verkíss, dags. 7. desember 2023, þar sem fram kemur tillaga að skilyrðum Reykjavíkurborgar um meðferð á bundnu kolefni fasteigna vegna leyfisskyldra byggingaframkvæmda. Markmið með slíkum skilyrðum er að búa til viðmið um kolefnislosun byggingarframkvæmda í samræmi við loftslagsmarkmið í Aðalskipulagi Reykjavíkur sem nýtast við gerð deiliskipulags er varða t.d. niðurrif bygginga.

    Ragnar Ómarsson frá Verkís og Sigríður Maack verkefnastjóri taka sæti á fundinum undir þessum lið. USK24040058
     

    Fylgigögn

  28. Lagt fram málskot Antons Á. Kristinssonar, ódags., vegna neikvæðrar afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 15. febrúar 2024 um breytingu á deiliskipulagi Grafarholts austur vegna lóðarinnar nr. 76 við Gvendargeisla sem felst í að skjólgirðing norðan og austan megin við lóð, meðfram gangstíg, fái að standa óbreytt. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. febrúar 2024.
    Niðurstaða skipulagsfulltrúa sbr. umsögn, dags. 15. febrúar 2024, staðfest. USK24030195

    Fylgigögn

  29. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kynningu fyrir almenning vegna breytinga á bílastæðum við Öldugötu, sbr. 21. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. maí 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 4. apríl 2024.
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. USK23050128

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

    Tillögunni er vísað frá þar sem þegar er búið að grenndarkynna fyrirhugaðar breytingar og framkvæma þær.

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Í maí 2023 lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að hugmyndir um mikla fækkun bílastæða við Öldugötu yrðu kynntar fyrir þeim íbúum götunnar og aðliggjandi gatna, sem helst eiga hagsmuna að gæta, sem og fyrir starfsfólki og foreldrafélagi leikskólans Öldukots. Yrði þessum aðilum gefinn kostur á að láta í ljós skoðun sína á breytingunni áður en endanleg ákvörðun yrði tekin um hana. Slíkt hefði verið æskilegt og í anda góðs íbúasamráðs. Nú er samráðstillaga Sjálfstæðisflokksins loks tekin til afgreiðslu eftir að hafa verið frestað í ellefu mánuði og á þeim tíma hefur umræddum breytingum verið hrint í framkvæmd.
     

    Fylgigögn

  30. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sbr. 34. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs 13. mars 2024, um sérmerkt 15 mínútna stæði við Seljaveg 2. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 2. apríl 2024.
    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. USK24030078

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

    Tillagan er felld því nú þegar hefur verið bætt við 1 stæði. Þetta er gert í tilraunaskyni. Til stendur koma á gjaldskyldu á svæðinu sem mun enn frekar mæta sjónarmiðum.
     

    Fylgigögn

  31. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um gönguljós á Miklubraut á móts við Klambratún/Kjarvalsstaði, sbr. 22. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 10. maí 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 2. apríl 2024.
    Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. USK23050126

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

    Aðstæður hafa verið skoðaðar. Niðurstaðan er sú æskilegt sé að viðhalda ljósastillingunni eins og hún er. Það er í þágu öryggis gangandi og hjólandi vegfarenda um svæðið. Ekki er talið forsvaranlegt að gera vegfarendum að bíða á mjórri miðeyju milli ljósaskiptinga.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Flokkur fólksins lagði til að koma á snjallljósum við gönguljósið á Miklubraut á móts við Klambratún. Í umsögn eru talin upp mörg vandamál við að bæta flæði við gönguljósin. Talið er að ekki sé hægt að bæta úr flæðinu vegna umferðar öryggissjónarmiða. Tillagan er því felld. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta mjög miður því þessi gönguljós valda miklum umferðartöfum. Þetta er ólíðandi aðstæður fyrir alla svo ekki sé minnst á mengun meðan bílar bíða. Fulltrúi Flokks fólksins telur að fyrst ekki er talið óhætt að bæta ljósastýringu þarna þá verði að horfa til annarra lausna eins og til dæmis að staðsetja göngubrú á þessu svæði.
     

    Fylgigögn

  32. Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að samin verði reglugerð um sektir og/eða önnur viðurlög vegna skotæfingasvæðisins á Álfsnesi, sbr. 14. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs dags. 17. janúar 2024. Einnig er lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs skrifstofu stjórnsýslu og gæða, dags. 27. mars 2024.
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. USK24010168

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

    Tillögunni er vísað frá þar sem það er ekki á okkar hendi að setja slíkar reglugerðir. Ráðuneytin bera ábyrgð á þeim.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Tillaga Flokks fólksins gekk út að samin verði reglugerð um sektir og eða önnur viðurlög ef settum reglum á skotæfingasvæðinu er ekki framfylgt. Í umsögn um málið er ekki tekið undir þessa tillögu og lagt er til að henni verði vísað frá. Talað er nokkuð eins og að engum dytti í hug að brjóta þessar reglur og því engin þörf sé á viðurlögum. Vísað er til rekstraraðila og að honum sé skylt að fylgja ákvæðum starfsleyfisskilyrða. Fram kemur að brot á leyfilegum opnunartíma geti varðað við starfsleyfissviptingu en hvað með brot á reglum um hávaðamengun og banni við blýhöglum. Hver á að fylgjast með því? Staðfest er að andfuglar á svæðinu eru með blýhögl í sér svo einhverjir eru að brjóta þessar reglur. Halda á íbúafund 10. apríl. Fulltrúi Flokks fólksins upplifir að íbúum sé nóg boðið og þeir löngu uppgefnir á þessu stríði við Reykjavíkurborg. Þær breytingar sem hér eru lagðar til, að skapa skilyrði fyrir skotæfingar, bera merki um hversu kappsamur meirihlutinn er að þjóna þessum hópi fólks sem vill skjóta. Aðstaða á svæðinu hefur verið byggð upp og kostuð af Reykjavíkurborg. Allt þetta ferli er borginni til skammar.
     

    Fylgigögn

  33. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að skíðagöngubraut verði meðfram vegi en ekki við garða íbúa í efra Breiðholti, sbr. 45. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 28. júní 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgangna og borgarhönnunar dags. 3. apríl 2024.
    Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    -    Kl. 12:09 víkur Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir samgöngustjóri af fundi. USK23060356

    Lögð fram svohljóðandi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar:

    Tillögunni er vísað frá þar sem ekkert hefur verið endanlega ákveðið um skíðagöngubrautir á þessu svæði. Auk þess væri það ekki háð skipulagslegu samþykki.

    Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

    Jákvætt er að hugmyndir að gönguskíðabraut yfir gróið svæði nálægt íbúabyggð í Seljahverfi séu ekki bindandi. Nú þegar hefur gríðarlegt rask orðið af framkvæmdunum við Arnarnesveg á hæðinni með tilheyrandi eyðileggingu á náttúru.Það er mikilvægt að vernda það sem eftir er af þessu dýrmæta græna svæði. Ef gera á gönguskíðabraut þá er eðlilegast að sú braut liggi inn á svæði Vetrargarðsins, eða þá við göngustíga. Íbúar vilja sjá teikningar sem fyrst sem útskýra hvernig þetta ótrúlega mikla magn af jarðvegi sem hefur verið safnað í fyrrverandi skíðabrekkuna, mun vera nýtt í nýjan Vetrargarð. Sandrok hefur verið á vindasömum dögum vegna þessa nýja fjalls, sem hefur valdið íbúum ónæði.
     

    Fylgigögn

  34. Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Lagt er til að gangstétt við horn Norðlingabrautar og Árvaðs, nánar tiltekið við suðurgafl verslunarmiðstöðvarinnar Norðlingabrautar 2, verði lagfærð. Rof er í gangstéttinni, sem getur skapað óþægindi og jafnvel hættu fyrir gangandi vegfarendur. Þá eru líkur á að ökumenn álykti ranglega að um bílastæði sé að ræða. Gangstéttin ætti að vera samfelld og steyptur kantur meðfram götunni. Um er að ræða fjölfarna gönguleið skólabarna.

    Frestað. USK24040098
    -     Kl. 12:12 víkur Kjartan Magnússon af fundi.
    -    Kl. 12:25 víkur Friðjón R. Friðjónsson af fundi
     

Fundi slitið kl. 12:36

Dóra Björt Guðjónsdóttir Aðalsteinn Haukur Sverrisson

Hildur Björnsdóttir Hjálmar Sveinsson

Pawel Bartoszek

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 10. apríl 2024