Loftslagsmál

Markmið Reykjavíkurborgar er að verða kolefnishlutlaus fyrir árið 2040 og að aðlögun að loftslagsbreytingum verði með vistvænum og mannvænum hætti. Stutt verður við markmið Parísarsamkomulagsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5°C. Aðgerðir verða endurskoðaðar árið 2025 og á fimm ára fresti eftir það í samræmi við Parísarsamkomulagið 2015. Árangur verður mældur að minnsta kosti árlega. 

Loftslagsáætlun

Aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í loftslagsmálum 2021-2025

Loftslagstölfræði

Loftslagsbókhald Reykjavíkurborgar 2022

Tölfræði um losun gróðurhúsalofttegunda

 

Grænt bókhald

Grænt bókhald yfir notkun jarðefnaeldsneytis, hitaveituvatns, orku, losun gróðurhúsalofttegunda og úrgangsmagn í rekstri Reykjavíkurborgar.

Aðlögun að loftslagsbreytingum

Skýrsla um áhættuþætti og aðlögun.

 

Tæp 300.000 tonn fyrir 2030

Reykjavíkurborg stefnir að kolefnishlutleysi árið 2040. Helsta áskorun við að ná þessu takmarki er að draga þarf hratt úr losun. Aðgerðaáætlun 2021 - 2025 endurspeglar þá víðtæku nálgun og breidd verkefna sem þarf til að umbreyting eigi sér stað í átt að kolefnishlutlausu samfélagi.

Í aðgerðaáætluninni eru fjöldi stórra og smærri aðgerða sem urðu til eftir víðtækt samráð og eru dregnar saman í fimmtán meginaðgerðir sem miða að því að draga úr kolefnislosun um tæp 300.000 tonn fyrir árið 2030.

Sex áhersluatriði

Aðgerðaáætluninni er skipt í sex megináherslur en allt eru þetta þættir og viðfangsefni sem telja hvað mest til að ná markmiðum Reykjavíkurborgar um kolefnishlutleysi. Þetta eru:

  • Gönguvæn borg
  • Orkuskipti
  • Heilsueflandi samgöngur
  • Hringrásarhugsun
  • Vistvæn mannvirki
  • Kolefnisbinding

Til viðbótar við þessa sex áhersluþætti eru aðrir mikilvægir og styðjandi þættir sem ná þvert á þá. Þeir eru:

  • Aðlögun að loftslagsbreytingum
  • Vitundarvakning og nýsköpun
  • Rekstur Reykjavíkurborgar

Loftslagssamningur

Reykjavíkurborg hefur verið valin til þátttöku í Evrópusamstarfi ásamt ríflega hundrað öðrum borgum um að verða kolefnishlutlaus árið 2030. Hluti af þessu verkefni er að gera loftslagssamning við hina ýmsu aðila í íslensku samfélagi um það hvernig við náum þessu nýja markmiði saman.

 

Áratugur aðgerða

Upp er runninn áratugur aðgerða og við megum engan tíma missa til að vinda ofan af loftslagsbreytingum af mannavöldum og koma í veg fyrir hamfarir sem af þeim hlýst.

Loftslagsáætlun Reykjavíkurborgar er leiðarvísir að því hvert verður haldið næstu fimm árin þar sem markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030 eru sett fram.

Loftslagsáætlunin styður við Græna plan Reykjavíkurborgar um kolefnishlutlausa borg og grænar fjárfestingar til næstu 10 ára. Nú þegar áætlunin hefur verið samþykkt verður sett af stað vinna við að magnsetja, kostnaðarmeta og tímasetja allar aðgerðirnar. Í því felst að meta hvað hver og ein aðgerð muni skila í koltvíoxíðs ígildum, hvað hún kosti og hvenær hún nái fram að ganga.

Markmiðið með aðgerðunum er að Reykjavíkurborg leggi sitt af mörkum til að markmið Parísarsamkomulagsins um að halda hnattrænni hlýnun innan við 1,5 °C náist.

Hlustað á íbúa og hagaðila

Loftslagsáætlunin var unnin með þátttöku íbúa og hagaðila. Í upphafi vinnunnar var hægt að senda inn tillögur að aðgerðum og haldnir voru vinnufundir.

Alþjóðlegar skuldbindingar

Reykjavíkurborg hefur verið þátttakandi í loftslagssáttmála sveitarfélaga (Covenant of Mayors) síðan 2011. Aðilum að loftslagssáttmála sveitarfélaga var boðin þátttaka í samstarfi um aðlögun að loftslagsmálum árið 2014 og ákvað Reykjavíkurborg að taka einnig þátt í því verkefni.

Reykjavík er einnig þátttakandi í CDP (carbon-disclosure-project) þar sem upplýsingum um kolefnisnotkun eru gerðar aðgengilegar öllum.

Reykjavíkurborg er einnig í samstarfi við norrænar höfuðborgir um sameiginlega yfirlýsingu í loftslagsmálum. 

Loftslagsmál og einstaklingar

Einstaklingar geta lagt sitt af mörkum með því að endurskoða samgönguvenjur og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Einnig að draga úr myndun úrgangs eftir því sem kostur er og endurvinna það sem fellur til.

Loftslagsviðurkenning og -yfirlýsing

Reykjavíkurborg og Festa hafa veitt íslenskum fyrirtækjum loftslagsviðurkenningar og hvatt fyrirtæki til að skrifa undir loftslagsyfirlýsingu. Markmiðið er að efla samstarf við íslenskt atvinnulíf, vekja jákvæða athygli á því sem vel er gert og að hvetja fyrirtæki til að setja sér markmið í loftslagsmálum.

Áherslur á grænan hagvöxt

Undanfarin ár hefur Reykjavíkurborg unnið markvisst að framgangi umhverfismála í borginni, innleitt vistvænan rekstur og lagt áherslu á grænar fjárfestingar sem hafa bætt umhverfi og lífsgæði borgarbúa.

Má nefna hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar í þessu samhengi, svo og Aðalskipulag Reykjavíkurborgar 2010–2030 þar sem kveðið er á um friðun grænna og opinna svæða, þéttingu byggðar, styrkingu almenningssamgangna, vistvænar lausnir í sorphirðu og kröfur um visthæfar lausnir við nýbyggingar.

Áætlað er að grænar fjárfestingar munu verða um 24% af heildarfjárfestingum Reykjavíkurborgar næstu 5 árin. Undir grænar fjárfestingar falla meðal annars fjárfesting í opnum svæðum, viðhald gönguleiða og úrbætur á forgangsleiðum strætisvagna, endurnýjun sorpíláta og fleira.

Þekkingarkista um loftslagsmál

Loftslagsmál eru eitt stærsta viðfangsefni samtímans en áhrif þeirra á líf fólks geta verið ólík eftir stöðu fólks í samfélaginu. Hér er búið að kortleggja helstu kynja- og jafnréttissjónarmið sem horfa þarf til samhliða þróun samfélagsins í átt að kolefnishlutleysi.