Söfn

Það er alltaf nóg að sjá og gera í Reykjavík! Söfn Reykjavíkurborgar standa fyrir öflugu starfi á ýmsum sviðum menningar og lista. Á listasöfnum borgarinnar er sköpunarkraftur innlendra og erlendra listamanna í hávegum hafður, bókasöfnin standa fyrir líflegu menningar- og fræðslustarfi fyrir fólk á öllum aldri og á Borgarsögusafninu er sögu lands og þjóðar gert hátt undir höfði.

Borgarbókasafn

Er alhliða upplýsinga- og menningarhús sem rekur átta bókasöfn víðsvegar um borgina. Þar eru hýstar mörg þúsund bækur, kvikmyndir, tónlist, dagblöð og tímarit, og staðið fyrir fjölda viðburða í hverri viku.

Listasafn Reykjavíkur

Er lifandi og framsækið listasafn sem er að finna á þremur stöðum í borginni, í Hafnarhúsinu, á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni. Þar eru reglulega haldnar sýningar á verkum eftir þrjá af þekktustu listamönnum þjóðarinnar, Erró, Kjarval og Ásmund Sveinsson.

Borgarsögusafn

Borgarsögusafn Reykjavíkur miðlar fjölbreyttri sögu Reykjavíkur á skemmtilegan hátt. Safnið skráir og varðveitir menningarminjar í Reykjavík og tryggir að allir hafi sem bestan aðgang að menningararfi borgarinnar. 

Þinn aðgangur að menningarlífi

Menningarkort Reykjavíkur er þinn aðgangur að menningarlífi borgarinnar. Innifalið í kortinu eru 14 söfn, 50+ sýningar, 300+ viðburðir, bókasafnsskírteini, auk fjölda tilboða.

 

Borgarkortið er frábær, þægileg og hagkvæm leið til að upplifa borgina okkar. Borgarkortið veitir frían aðgang að fjölda safna og sundlauga ásamt því að gilda sem aðgangseyrir í strætó innan höfuðborgarsvæðisins og Viðeyjarferjuna.

Pöntun ljósmynda

Hægt er að panta ljósmyndir úr myndasafni Ljósmyndasafns Reykjavíkur til einkaafnota eða til útgáfu. 

 

Í Ljósmyndasafni Reykjavíkur eru nú varðveittar um 6 milljónir ljósmynda af ýmsum stærðum og gerðum, þær elstu frá því um 1860.

Borgarskjalasafn

Borgarskjalasafns Reykjavíkur er safnar, innheimtir, skráir og varðveitir skjöl og aðrar skráðar heimildir um starfsemi og sögu borgarinnar til notkunar fyrir borgaryfirvöld, borgarstofnanir og einstaklinga.

Sagan þín

Borgarskjalasafnið sækist eftir að fá til varðveislu frá einstaklingum bréf, dagbækur, ljósmyndir, heimilisbókhald, póstkort, heillaóskakort og hvaðeina sem varpað getur ljósi á líf fólks í borginni. Leitað er eftir skjölum fólks af öllum stéttum, jafnt yngri sem eldri skjalasöfnum og jafnt stórum sem smáum.

 

Skjöl einkaaðila gefa oft aðra sýn á líf og sögu íbúa borgarinnar heldur en opinber skjöl gera og er því mjög mikilvægt að einnig þau varðveitist til frambúðar.

Forsagan þín

Borgarskjalasafn getur veitt þér upplýsingar um þína fortíð. Til dæmis um ættleiðingar, dvöl á vöggustofu eða gamlar einkunnir úr grunnskóla.

 

Borgarskjalasafn Reykjavíkur er opið öllum án aðgangseyris. Að jafnaði gildir sú regla að hverjum þeim, sem þess óskar, er heimill aðgangur að skjölum í vörslu safnsins.