Að byrja í leikskóla

Að byrja í leikskóla markar upphaf skólagöngunnar og er því stór stund í lífi bæði barns og foreldra. Gagnkvæm virðing milli foreldra og starfsfólks leikskólans er forsenda þess að barninu líði vel og að það fái notið sín til fulls. Þess vegna er mikilvægt að strax myndist góð tengsl á milli leikskóla og heimilis.

Hvenær fæ ég að vita hvort ég fái pláss?

Eftir að sótt er um færð þú sendan staðfestingarpóst um að umsókn sé móttekin. Þegar pláss býðst færð þú annan póst með boði um vistun. Í millitíðinni eru ekki sendar tilkynningar um stöðu mála en þú getur skoðað hana inni á Völu. Tekið er inn í leikskóla allan ársins hring, en flestum plássum er úthlutað á vorin.

Hvað kostar að vera í leikskóla? Hvernig borga ég?

Leikskólagjöld eru greidd samkvæmt gjaldskrá. Þú greiðir í hlutfalli við þann tíma sem barnið þitt dvelur í leikskólanum sem og hluta kostnaðar við máltíðir. Gjöldin eru innheimt fyrirfram með kröfu í netbanka. Gjalddagi leikskólagjalda er 1. hvers mánaðar og eindagi 30 dögum síðar.

Hvernig virkar aðlögun í leikskóla?

  • Fyrstu dagar barns í leikskóla kallast aðlögun. Það er mismunandi eftir leikskólum hvernig henni er háttað, en foreldrar gegna alla jafna lykilhlutverki í aðlögun barnsins.
  • Sumir leikskólar halda stærri kynningarfundi fyrir foreldrahópinn þegar leikskólaganga barnanna hefst. Aðrir leikskólar bjóða upp á einstaklingsfundi og enn aðrir bjóða bæði upp á kynningar- og einstaklingsfundi.
  • Á þessum fundum er starfsemin kynnt fyrir foreldrum og farið yfir ýmis mál. Þar gefst einnig tækifæri fyrir foreldra að spyrja spurninga og spjalla um það sem þeim finnst mikilvægt að leikskólinn viti um barnið, til dæmis hvernig skapgerð barnið hefur ásamt upplýsingum um mataræði, áhugamál, fjölskyldugerð, móðurmál og annað.
  • Stundum er aðeins eitt barn í aðlögun í barnahópnum en oft er hópur barna tekinn inn í leikskólann á sama tíma. Alla jafna gengur aðlögunin þannig fyrir sig að fyrsta daginn er barnið í leikskólanum í stutta stund en svo lengist viðveran dag frá degi. Misjafnt er milli leikskóla hversu mikið foreldrar eru á staðnum á meðan á aðlögun stendur, en gera má ráð fyrir viðveru foreldra allavega til að byrja með. Ef möguleiki er á því er einnig gott að gera ráð fyrir meiri sveigjanleika í vinnu fyrst um sinn því stundum þarf að sækja barnið með stuttum fyrirvara, allt eftir því hvernig aðlögunin gengur.

Hvað þarf að koma með í leikskólann?

  • Þegar barn byrjar í leikskóla er gott að ræða við starfsfólk um hvað er nauðsynlegt að taka með í skólann – föt til skiptanna, útiföt og skó sem henta íslenskri veðráttu, bleyjur, blautþurrkur og annað.
  • Í leikskólanum fá börn morgunmat, hádegismat og síðdegishressingu. Börnin þurfa því alla jafna ekki að koma með nesti. Ef barn getur ekki borðað einhvern mat vegna mataróþols, ofnæmis eða af trúarlegum ástæðum er mikilvægt að upplýsa leikskólastarfsfólk um það.
  • Við undirritun dvalarsamnings í leikskóla staðfestir foreldri við leikskólastjóra hvaða máltíðir eru innifaldar í leikskólagjöldunum.

Hver er þessi Vala?

Reykjavíkurborg notar leikskólakerfið Völu til að halda utan um ýmislegt sem tengist vistun barnsins þín. Hægt er að skrá sig inn á Völu í gegnum app eða vafra en til þess notar þú rafræn skilríki eða Íslykil. Þegar barnið er byrjað í leikskólanum getur þú á einfaldan hátt tilkynnt forföll og sent skilaboð til leikskólans í gegnum Völu appið. Þar getur leikskólinn líka skráð upplýsingar um viðveru, dagskrá, matseðla, hvernig dagurinn hefur gengið og margt fleira.

Getum við aðstoðað?

Þarftu frekari aðstoð eða fannstu ekki það sem þú varst að leita að? Þjónustuver borgarinnar getur aðstoðað þig í síma 411 1111, á netspjalli og í gegnum netfangið innritun.leikskolar@reykjavik.is.